Innlent

Lögreglumaðurinn yfirheyrður vegna gruns um brot í starfi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Málið er litið alvarlegum augum innan lögreglunnar.
Málið er litið alvarlegum augum innan lögreglunnar. Vísir / Stefán
Lögreglumaðurinn sem grunaður er um að hafa stungið sektargreiðslum í vasann er nú í yfirheyrslum. Þetta segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði. „Við erum í þessum töluðu orðum að yfirheyra þennan ágæta lögreglumann,“ segir hann. Þetta er fyrsta yfirheyrslan á manninum.

Ekki liggur ljóst fyrir hversu háar upphæðir maðurinn er talinn hafa stungið undan. „Fyrst þurfum við að fá upplýsingar um hvort að þetta stenst allt saman. Síðan þarf að gera einhverja tilraun til að reikna út hversu miklar fjárhæðir þetta eru en það verður aldrei neitt nákvæmt,“ segir Jónas.

Rannsókn málsins er á lokametrunum en hún er umfangsmikil. „Það er búið að vera gríðarleg vinna í kringum þetta, alveg svakalegt.“

Málið er einstakt að mati Jónasar. „Þetta er kannski í fyrsta skipti sem þetta er gert með þessum hætti. Sem betur fer að þá er þetta ekki algengt,“ segir hann.

Hin meintu brot eru litin mjög alvarlegum augum innan lögreglunnar. „Að einhver hugsi svona er ömurlegt, við vinnum ekki svona,“ segir Jónas. „Þetta er alveg svakalegt.“


Tengdar fréttir

Sakaður um að stinga sektargreiðslum í eigin vasa

Lögreglumaðurinn við embætti lögreglunnar á Seyðisfirði, sem grunaður er um alvarlegt brot í starfi, er talinn hafa stungið sektargreiðslum í eigin vasa. Um er að ræða sektir sem erlendir ferðamenn greiddu í reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×