Íslenski boltinn

KR með annað tilboð frá AIK | „Viljum meiri pening“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukur Heiðar í leik með KR.
Haukur Heiðar í leik með KR. Vísir/Daníel
KR hefur fengið annað tilboð í bakvörðinn Hauk Heiðar Hauksson frá sænska úrvalsdeildarfélaginu AIK. Þetta staðfesti Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.

KR hefur þegar hafnað einu tilboði í Hauk Heiðar en forráðamenn sænska liðsins hafa ekki gefist upp.

„Tilboðið kom í gær og við erum að svara því núna. Það er betra en það fyrra en menn eiga samt nokkuð langt í land. Við viljum meiri pening en er á borðinu fyrir hann. Við teljum að hann hafi sýnt það og sannað að hann sé þess virði,“ sagði Kristinn.

„Það er þó greinilega mikill áhugi á honum. Við höfum líka fundið fyrir áhuga annarra liða þó svo að þetta sé sem stendur eina tilboðið sem er á borðinu. Við vitum ekki hvort það muni bætast í þann hóp.“

Haukur Heiðar er 23 ára Akureyringur sem gekk í raðir KR árið 2012 frá KA. Hann hefur verið lykilmaður í liði KR undanfarin ár og var fyrr í haust valinn í A-landslið karla í fyrsta sinn.


Tengdar fréttir

Lars Lagerback hrósar Hauki Heiðari

Lars Lagerback hrósar Hauki Heiðari Haukssyni í hástert, en Haukur Heiðar er við það að ganga í raðir AIK samkvæmt sænsku fótboltavefnum fotbolldirekt.

Haukur Heiðar að semja við AIK í Svíþjóð

Sænski fréttamiðillinn FotbollDirekt hefur heimildir fyrir því að sænska úrvalsdeildarfélagið AIK sé mjög nálægt því að semja við íslenska bakvörðinn Hauk Heiðar Hauksson, sem hefur gert það gott hjá KR-liðinu síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×