Lífið

„Ef þetta væri mynd af karlmanni teldist þetta ekki fréttnæmt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Antonía Lárusdóttir / Interview
Leikkonan Keira Knightley samþykkti í sumar að sitja fyrir bera að ofan í blaðinu Interview. Hún setti eitt skilyrði: Að líkami hennar yrði ekki lagaður í tölvu á nokkurn hátt.

Myndin af Keiru hefur vakið gríðarlega athygli en hún útskýrði af hverju hún ákvað að sitja fyrir með þessum hætti í viðtali við The Times.

„Það hefur verið átt við líkama minn á ljósmyndum svo oft og á svo marga vegu í jafnmisjöfnum tilgangi, hvort sem um leynilegar myndatökur (e. paparazzi) er að ræða eða á veggspjöldum fyrir kvikmyndir,“ segir Knightley.

Myndin fræga.
„Þessi taka var ein þeirra þar sem ég sagði einfaldlega: Ok, ég er sátt við að vera ber að ofan svo framarlega sem þú stækkar ekki brjóstin eða breytir á nokkurn hátt. Mér finnst skipta máli að koma þeim skilaboðum á framfæri að lögunin skiptir engu máli.“

Reykjavíkurdóttirin Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir telur athyglisvert hve mikla athygli myndin hefur hlotið.

„Það sem mér þykir áhugavert við umfjöllunina við þessa mynd er að ef þetta væri mynd af karlmanni teldist þetta ekki fréttnæmt. Þar sem þetta er mynd af konu þá er þetta allt i einu eitthvað sjokkerandi,“ segir hún. Hún fagnar því að leikkonan hafi tekið þetta skref.

„Mér finnst flott hjá henni að vekja athygli á því að leikkonur og leikarar eru ekki endilega sátt við að það sé verið að fótósjoppa þau. Nú kemur hún fram berbrjósta á sínum eigin forsendum og eins og náttúran skapaði hana. Annað áhugavert við þetta er að þetta er frávik frá norminu því þessi mynd er ekki fótósjoppuð. Það segir okkur mikið að hún hafi sérstaklega þurft að taka fram að ekki megi fótósjoppa sig,“ bætir Guðbjörg við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×