Erlent

Boko Haram grunað um mannskæða árás í Nígeríu

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá neyðarmóttöku í borginni Kano í dag.
Frá neyðarmóttöku í borginni Kano í dag. Vísir/AFP
Tugir eru taldir hafa látið lífið í árás á eina stærstu mosku borgarinnar Kano í Nígeríu. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en líklegast er talið að hryðjuverkasamtökin Boko Haram standi að baki henni.

BBC greinir frá. Lögregla í Nígeríu segir að 35 manns séu taldir af en það kemur ekki heim og saman við frásagnir sjónarvotta, sem segja mun fleiri hafa látið lífið. Björgunarsveitir í landinu segja að nærri fjögur hundruð manns gætu legið í valnum eftir árásina, sem var gerð á bænatíma. Emírinn af Kano leiðir oftast bænir í moskunni en hann kallaði fyrir stuttu eftir því að fólk tæki upp vopn í baráttunni gegn Boko Haram.

Sá hópur hefur banað rúmlega tvö þúsund manns á þessu ári, samkvæmt mannréttindasamtökum. Goodluck Jonathan, forseti Nígeríu, fordæmdi í dag árásina og bað alla Nígeríubúa um að taka saman höndum í baráttunni gegn hinum „sameiginlega óvini.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×