Lífið

Robbi Chronic er 25 kílóum léttari: "Þetta er allt annað líf“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Fyrir og eftir mynd af Robba.
Fyrir og eftir mynd af Robba. mynd/einkasafn
„Ég hefði nú ekki geta gert þetta án aðstoðar. Ég á það til að vera of góður við sjálfan mig oft á tíðum eins og sést kannski á gömlu myndinni,“ segir Róbert Aron Magnússon, betur þekktur sem Robbi Chronic. Hann birti fyrir og eftir mynd af sér á Instagram þar sem sést hve mikið hann hefur tekið sig í gegn síðustu misseri.

„Ég byrjaði að vinna í þessu hægt og rólega fyrir um tveimur árum en tók þetta fyrir alvöru núna í haust. Ég fékk góða aðstoð frá vinkonu minni sem var dugleg að sparka í mig þegar ég var latur og í framhaldinu fékk ég mér einkaþjálfara. Með þeirra hjálp fóru hlutirnir að gerast,“ segir Robbi sem er 25 kílóum léttari nú en þegar hann var sem þyngstur. Hann finnur mikinn mun á sér síðan hann sneri við blaðinu.

Robba líður miklu betur í dag.mynd/einkasafn
„Þetta er allt annað líf. Mér líður miklu betur, ég er léttari í lund og á vigtinni.“

Robbi rekur Hamborgarabúllu Tómasar í London. Hann segir það furðu auðvelt að vinna á hamborgarastað og breyta um lífsstíl.

„Þannig eiginlega byrjaði þetta. Þegar maður horfir á 750 hamborgara eldaða á dag þá langar manni enn frekar í eitthvað annað en borgara. Fyrir utan það eru hamborgarar ekki óhollir í hófi, Tommi er nú sönnun þess. Hann hefur borðað allavega einn hamborgara á dag í átta ár,“ segir Robbi glaður í bragði. En hvað vill hann segja við þá sem vilja snúa við blaðinu líkt og hann sjálfur gerði?

„Rífa sig í gang, passa mataræðið og ég mæli eindregið með því að fá sér einkaþjálfara til að halda manni við efnið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×