Erlent

Birta myndband af því þegar lögreglan skaut 12 ára dreng til bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tamir Rice var 12 ára gamall.
Tamir Rice var 12 ára gamall.
Lögreglan í Cleveland hefur birt myndband úr öryggismyndavél sem sýnir aðdraganda þess þegar tveir lögreglumenn skutu 12 ára dreng, Tamir Rice, til bana um síðustu helgi. Myndbandið er birt að beiðni fjölskyldu drengsins. Þá hefur lögreglan einnig birt upptöku af símtali í neyðarlínuna sem leiddi til þess að lögreglan kom á staðinn.

„Hann dregur byssuna ítrekað upp úr buxunum sínum og miðar henni á fólk,“ segir sá sem hringir meðal annars í símtalinu. Þá er hann sérstaklega spurður út í það hvort Rice sé hvítur eða svartur.

Drengurinn hafði verið að leika sér á leikvelli með leikfangabyssu og ekki hlýtt fyrirmælum lögreglunnar um að setja hendur upp í loft.

Vegfarandi, sem átti leið hjá leikvellinum, hringdi í lögregluna og lét vita af Rice. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang og skaut annar þeirra tveimur skotum sem urðu drengnum að fjörtjóni. Annar lögreglumaðurinn var á sínu fyrsta starfsári en hinn átti að baki meir en áratug í starfi.

Lögreglumennirnir hafa verið sendir í leyfi frá störfum og er rannsókn hafin á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×