Innlent

Höfundum Biblíunnar láðist að taka tillit til mannauðsstefnu Akureyrar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Snorri Óskarsson verður í eldlínunni þann 6. febrúar í Héraðsdómi Norðurlands eystra vegna skoðanna sinna og skrifa.
Snorri Óskarsson verður í eldlínunni þann 6. febrúar í Héraðsdómi Norðurlands eystra vegna skoðanna sinna og skrifa.
Akureyrarbær hefur stefnt Snorra Óskarssyni, sem er einnig þekktur sem Snorri í Betel, og var fyrirtaka í málinu á mánudaginn í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Bæjaryfirvöld fara fram á að úrskurður innanríkisáðuneytisins, sem taldi uppsögn Snorra úr starfi grunnskólakennara í Brekkuskóla hafa verið ólögmæta. Snorra var sagt upp árið 2012 fyrir skrif á bloggsíðu sína þar sem hann fjallaði meðal annars um samkynhneigð.

Í greinargerð lögfræðings Snorra kemur fram að hann telji bæjaryfirvöld skorta skilning á kristinni trú, að Snorri hafi eingöngu byggt skrif sín á því sem kemur fram í Biblíunni.

Bæjaryfirvöld mótmæla því að uppsögnin hafi verið ólögmæt, telja að Snorri hafi brotið nokkrar reglur í starfi. Stefna bæjaryfirvalda á hendur Snorra er ítarleg, þar sem farið er yfir aðdraganda uppsagnar Snorra. Vísað er í bloggfærslur sem urðu til þess að Snorri fékk áminningar í starfi og svo þá sem varð til þess að hann var rekinn úr starfi sínu.

Í stefnu Akureyrarbæjar er vísað í kvartanir foreldra og meintar yfirlýsingar Snorra um réttindi minnihlutahópa inni í skólastofunni, en engar sönnur eru færðar á það. Hafi Snorri látið einhver orð af því tagi falla þótti skólastjórnendum það ekki tilefni til aðvörunar, því hann var eingöngu aðvaraður fyrir skrif á bloggsíðu sína og síðar rekinn fyrir skrif sín.

Sjá einnig: Snorri í Betel rekinn fyrir skoðanir sínar

Í stuttu máli snýst því málið um það hvort kennari hafi rétt til að tjá sig um álitaefni í kristinni trú á opinberum vettvangi, utan skólastofunnar. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði í málinu á sínum tíma og taldi ummæli Snorra ekki hafa haft áhrif á störf hans innan hans.

Snorri kenndi við Brekkuskóla.
Evangelísk afstaða

Ein þekktasta og víðlesnasta bloggfærsla Snorra í Betel ber titilinn „Er hatur hjá evangelískum?“ Þar kryfur Snorri um frétt sem birtist á mbl.is og fjallar um árekstra á milli samkynhneigðra og evangelískra presta:

„Enn eina ferðina koma upp árekstrar milli samkynhneigðra og evangelískra. Sagt er í greininni: "Mannréttindasamtök kenna evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra"

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að bæta þessum orðum við í umræðunni. Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Síðar í færslunni skrifar Snorri:

„Þetta stutta innlegg mitt verður eflaust flokkað sem "hatursáróður" - kannski bara vegna þess að ég tek Evangelíska afstöðu til málsins

Allsstaðar veldur þetta efni sundrungu og deilum. Hið versta er að við getum séð ávöxtinn af græðginni sem er líka synd. Nú þurfa fjölskyldurnar á Íslandi að lifa við þröngan kost vegna græðginnar. Syndin sem nú er barist fyrir að verði "mannréttindi" kemur einnig með sinn ávöxt!“

Túlkað sem hann vilji dauðarefisngu fyrir samkynhneigð

Í stefnu Akureyrarbæjar á hendur Snorra kemur fram að þar á bæ telji menn þessa bloggfærslu jafngilda því að Snorri vilji refsa samkynhneigðum með dauða þeirra. Þetta töldu bæjaryfirvöld „mjög meiðandi í garð samkynhneigðra, fjölskyldna þeirra og ekki síst barna, sem ættu erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, verjast slíkum ummælum og gætu tekið þau bókstaflega.“

Snorri fékk formlega áminningu fyrir skrif sín þar sem sagt var að skrifin samrýmist ekki starfi Snorra. Þar er vitnað í mannauðsstefnu Akureyrarbæjar og kjarasamning grunnskólakennara sem yfirvöld telja að boði „að starfsmenn skuli gæta þess að framkoma og athafnir utan vinnustaðar samrýmist starfinu sem þeir gegna.“

Snorri var auk þess sendur í sex mánaða leyfi vegna skrifa sinna.

Hér má sjá skjáskot úr bloggi Snorra.
Skoðun bæjaryfirvalda byggð á vankunnáttu á Biblíunni

Í ítarlegri greinargerð lögmanns Snorra kemur skýrt fram að Snorri byggði skrif sín á trúarriti kristinna manna, Bíblíunni. „Ein helstu trúarrit þjóðkirkjunnar eru 66 bækur Biblíunnar. Stefndi skilur umfjöllun sumra þeirra um samkynhneigð á þann veg að slíkt hafi manninum ekki verið ætlað að stunda,“ segir í henni. 

Í greinargerðinni segir að skoðun bæjaryfirvalda á málinu – og þar af leiðandi hin formlega aðvörun – sé byggð á vankunnáttu á kristinni trú og ritum hennar. Til dæmis segir í greinargerðinni:

„Stefnanda [bæjaryfirvöldum] virðist hafa skort þennan grunn þegar hann afbakaði blogg stefnda og taldi að Guð myndi draga syndir í dilka og refsa samkynhneigðum sérstaklega. Slíkur skilningur er víðsfjarri því sem stefndi var að reyna að segja og víðsfjarri kenningum hvítasunnumanna sem og evangelískra manna. Í þeirri guðfræði eru allir menn undir söku sök seldir, háir sem lágir.“

Í greinargerðinni er einnig fjallað um þá skoðun bæjaryfirvalda að skrif Snorra hafi verið nemendum skaðleg: 

„Til að áminning geti réttlæst af hagsmunum nemenda þyrfti auk annars að sanna að þeim sé yfirleitt skaði búinn þótt eþir frétti utan úr bæ að kennari hafi tilteknar skoðanir á samfélagsmálum. Frekar myndu menn telja að slíkt þroski nemendur og geri þá víðsýnnni og umburðarlyndri og þar með tilbúnari undir lífið og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Sönnunarbyrði um þetta atriði er á stefnanda.“

Vísað úr starfi: Kynbreyting eða leiðrétting? 

Í apríl og júní 2012 skrifaði Snorri svo bloggfærslur sem urðu til þess að hann var rekinn. Fyrri færslan var titluð „Gildum er hægt að breyta“ og fjallaði um kristin gildi, kristilegar skilgreiningar á hjónabandi og lítilega um skoðanir Snorra á fóstureyðingum:

„Þess vegna höfum við ekki rétt á að fara með líkama okkar eins og hverju okkar lystir. Því sá sem eyðir musteri heilags anda mun Guð eyða! Þannig gerum við okkur sek við Guð og tilskipun hans. "En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn og Drottinn fyrir líkamann." (1.Kor 6: 13) Þannig verður hjónabandið heilagt því Guð út bjó það þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífi. Ekki tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona. Svo er: "Hver er þá náungi minn"? Þar komum við að "Miskunnsama Samherjanum" sem leggur hinum þjáða lið og greiðir ekki bara lágmarkslaun sem duga ekki einu sinni fyrir framfærslu á Íslandi. Þessi "miskunnsami" skilur að auðurinn er skapaður af öllum sem starfa við fyrirtækið og þeir allir eiga því réttlátan hlut í framleiðninni. Þessi hugsun er varðveitt í því að náungi minn er jafningi minn, skapaður í Guðs mynd á sama hátt og ég,“ segir Snorri í blogginu og heldur áfram:

Þá má nefna gildin um fjölskylduna, Makar elski og börnin alist upp í heimili elsku og trausts. Hjörtu feðra snúist til barna og óhlýðnir fái hugarfar réttlátra. Þessum gildum hafnaði Anders Breivik en ná þau til okkar á Íslandi? Við hrósum happi yfir því að vera ekki eins og þessi "tollheimtumaður" en ef kristin gildi vantar í okkar þjóðfélag er þá ekki aðeins stigsmunur og okkur og honum en ekki eðlismunur? Eða hvernig getum við látið framhjá okkur fara 900 fóstureyðingar á Íslandi ár hvert án þess að spyrna við fótum. Jú með því að líta ekki á fóstrin sem manneskjur - Og Breivik sá ekki samborgara sína sem "Musteri heilags anda"!

Sú seinni bar titilinn „Leiðrétting?“ og fjallaði um hvort nota ætti orðið kynbreyting eða orðið leiðrétting yfir það þegar fólk fer í kynskiptiaðgerð. 

„Ég hef unnið lengi við að leiðrétta ritgerðir og stíla. Þá er gjarnan stuðst við ákv. reglur sem eru stafsetningareglur í íslensku. Þær eru ekki hinar sömu í ensku eða þýsku. Bretar og Þjóðverjar hafa sínar stafsetningareglur. En kennarar leiðrétta ranga stafsetningu, röng svör eða röng viðbrögð. Leiðréttingar eru einnig mikið notaðar í siglingafræðinni hvort sem um skip eða flug er að ræða. Menn taka tillit til segulskekkju, vinda og strauma. Það er kallað leiðrétting af því að menn ætla að ná réttum áfangastað,“ segir Snorri á bloggsíðusinni og heldur áfram:

„Nú hefur orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu. Drengur sem fæddist "drengur" og hefur xy -kynlintning fer í kynskiptiaðgerð. Það er kallað "leiðrétting". Hvaða merkingarbrengl er virkilega komið í Íslenskt tungumál? Þetta tiltekna ætti að vera kynbreyting en ekki leiðrétting. Því frá náttúrunnar hendi er drengurinn karlkyns vera, hvað svo sem honum finnst eða við álítum. Guð gjörði þau karl og konu og þau tvö skulu bindast, stofna heimili og verða einn maður. Ef menn ætla síðan að breyta þessum atriðum og gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu. Sál mannsins er hvorki karlkyns- né kvenkynsvera nema af því að hún er í líkama karls eða líkama konu. Þetta er ekki hægt að leiðrétta heldur breyta og afbaka.“

Telja bloggið hatursáróður

Bæjaryfirvöld á Akureyri telja að bloggfærslur Snorra hafi verið hatursáróður:

„Stefnandi byggir á því að opinber umfjöllun stefnda á bloggi, hafi verið meiðandi fyrir samkynhneigða og transfólk og gengið gegn lögum, reglum, samþykktum opg skólastefnu. Þá hafi framkoma og athafnir stefnda utan starfs verið ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem grunnskólakennari.

[…] Stefnandi byggir á því að í umræddu bloggi stefnda hafi falist hatursáróður, en Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur skilgreint hatursáróður þannig að um sé að ræða tjáningu sem dreifir, hvetur til, stuðlar eða réttlætir hatur sem byggist á skorti á umburðarlyndi. Byggir stefnandi á því að slíkur áróður verði ekki réttlættur með vísan í Biblíuna.“



Höfundum Biblíunnar láðist að taka tillit til mannauðsstefnunnar

Í greinargerð um lögfræðings Snorra um bloggfærslunar kemur fram að honum hafi verið boðinn starfslokasamningur í kjölfar bloggfærslanna.

„Tilefnið var ekkert og hegðun stefnanda ofstækisfull að mati undirritaðs. Einkum í ljósi þess að stefndi sagði frá því að eitthvað sæði ekki í 2000 til 3000 ára gömlum, merkum fornritum. Það er alveg rétt að þeir sem þau fornrit skrifuðu á sínum tíma var ókunnugt um mannauðsstefnu stefnanda og afbökun hans á henni. Svo alvörugefnir urðu menn að til voru kallaðir bæði fræðslustjóri og lögmaður út af frásögn stefnda um að eitthvað sætði ekki í Biblíunni. Á þessum tíma var stefndi ekki einu sinni við kennslu.“

Í greinargerðinni er einnig farið í skilgreiningu Snorra á kyni og af hverju hann vildi ekki nota orðið kynleiðrétting:

„Stefnda var ekki ljóst hvað hafði verið gert rangt eða vitlaust í upphafi þannig að það þarfnist leiðréttingar við. Var hann vanur að nota orðið „leiðrétting“ um ranga stafsetningu eða ranga stefnu skipa en taldi ekki að menn hafi fengið XY litninga eða XX litninga fyrir mistök. […] Fannst honum orðið „kynbreyting“ betri íslenska en „kynleiðrétting“. Var hann helst á því að engin mistök hafi verið gerð heldur sé frekar um merkingabrengl að ræða. Stefndi vildi skilgreina kyn vísindalega, þ.e. út frá erfðafræðinni en ekki út frá upplifun einstaklingsins sjálfs á kyni sínu eða huglægu áliti annarra.“

Aðalmeðferð málsins fer að öllum líkindum fram þann 6. febrúar og fer hún fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra.


Tengdar fréttir

Snorri Betel bíður eftir svörum - vill frekar fara í mál

Snorri Óskarsson, oftast kenndur við Betel-söfnuðinn, segist enn bíða eftir svörum frá innanríkisráðuneytinu en hann krafði ráðuneytið svara eftir að honum var sagt upp sem kennari hjá Akureyrarbæ síðasta vor. Það er Vikudagur sem greinir frá þessu en í skriflegu svari sem hann sendi fjölmiðlinum segir:

Mál Snorra í Betel minnir á Pussy Riot

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, líkir dómnum í Rússlandi þar sem stúlkurnar þrjár úr pönkhljómsveitinni Pussy Riot voru dæmdar í tveggja ára fangelsi við brottvikningu Snorra í Betel úr kennarastarfi á Akureyri í nýjum pistli á bloggsíðu sinni.

Snorri í Betel vill á þing

"Já, ég gekk í Kristilega flokkinn,“ segir Snorri Óskarsson, oft kenndur við Betel. "Við viljum bjóða okkur fram, gagngert til þess að kristnu gildi hafi hljómgrunn, eða talsmann, á Alþingi.“

Snorra var ekki sagt upp vegna ummæla um samkynhneigð

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir í samtali við vikublaðið Akureyri að það sé af og frá að Snorra Óskarssyni, kenndan við trúarsöfnuðinn Betel, hafi verið sagt upp störfum sem kennari við Brekkuskóla í bænum vegna trúarskoðana sinna eða ummæla hans um samkynhneigð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×