Handbolti

Ísland skráð á æfingamót á sama tíma og HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta og Handknattleikssamband Íslands höfðu skipulagt mikla dagskrá fyrir íslenska landsliðið í janúar áður en kom í ljós að Ísland fengi að vera með á HM í Katar.

Íslenska liðið er meðal annars skráð á æfingamót í Noregi 16. til 18. janúar en það er á sama tíma og tveir fyrstu leikir Íslands í riðlakeppninni á HM í Katar.

Ísland mætir Svíum í fyrsta leik sínum á HM 16. janúar og spilar síðan við Alsír tveimur dögum síðar. Í mótinu í Noregi mætir íslenska liðið Noregi (16. janúar), Serbíu (17. janúar) og Ungverjalandi (18. janúar).

Sindri Sverrisson fjallar um vandamálið í Morgunblaðinu í morgun og spurði Aron hvað menn ætluðu að gera.  „Það er verið að vinna úr því hvað gert verður varðandi þetta mót í Noregi. Ég hef sagt það frá því að ég tók við landsliðinu að það sé mikilvægt að við séum með B-landslið til að undirbúa næstu kynslóð eins vel og hægt er," sagði Aron í viðtali við Sindra í Morgunblaðinu.

„Núna er verið að skoða hvort hægt sé að taka þetta mót, og svo er önnur hlið á þessu sú hvort Norðmenn myndi sætta sig við það að fá B-lið frá okkur," sagði Aron í sama viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×