Marshawn Lynch, hlaupari NFL-meistaranna í Seattle Seahawks, er maður fárra orða. Að minnsta kosti ef mið er tekið af svörum hans við spurningum fréttamanna eftir sigur liðsins á Arizona Cardinals á sunnudagskvöld, 19-3.
Lynch var nýlega sektaður um 12,3 milljónir króna af NFL-deildinni fyrir að neita að gefa kost á sér í viðtöl eftir leik Seattle fyrr í mánuðinum.
Hann tók sér því tíma til að ræða við fjölmiðla í búningsklefanum í gær en svaraði nánast öllum spurningum eins - „Yeah,“ eins og sjá má hér. Lynch, sem er einn besti hlaupari NFL-deildarinnar, gaf fjórtán Yeah-svör, sagði tvisvar „kannski“, einu sinni „ég veit það ekki“ og einu sinni „no juice“.
Talsmaður NFL-deildarinnar hafði engin viðbrögð við uppákomu gærkvöldsins þegar bandarískir fjölmiðlar leituðu eftir þeim í morgun.
