Miðvörðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson hefur gengið til liðs við Stjörnuna frá ÍBV en vefsíðan Eyjamenn.com greindu frá þessu seint í gærkvöldi.
Brynjar Gauti gekk til liðs við ÍBV frá Víkingi Ólafsvík í febrúar 2011 og hefur átt farsælan feril í vörn ÍBV.
Eyjamenn.com greindu frá því að Brynjar Gauti hafi tilkynnt forráðamönnum og leikmönnum ÍBV í gær að hann hafi náð samkomulagi við Íslandsmeistara Stjörnunnar.
ÍBV hafði áhuga á að framlengja samning Brynjars Gauta við félagið en telja má líklegt að Brynjar Gauti og Stjarnan gangi frá samningsmálum sín á milli í dag eða á allra næstu dögum.
„Stuðningsmenn ÍBV þakka Brynjari fyrir frábær ár með félaginu, vertu velkominn aftur þegar þú ert tilbúinn til að vinna með okkur titilinn,“ segir í lok fréttarinnar á Eyjamenn.com.
