Lekamálið snérist í raun allt um meðferð upplýsinga um hælisleitandann Tony Omos, sem nú er á Ítalíu eftir að honum var vísað úr landi. Upplýst hefur verið að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, greinargerð um rannsókn lögreglustjórans á Suðurnesjum á málum Omos þegar Sigríður Björk var lögreglustjóri þar.
Persónuvernd hefur nú óskað eftir að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skýri frá því hvaða upplýsingum var miðlað til innanríkisráðuneytisins með sendingu umræddrar greinargerðar. Þá er þess óskað að fram komi hvernig sú miðlun er talin horfa við ákvæðum laga um persónuvernd.
Jafnframt er þess óskað að afrit af umræddri greinargerð verði sent Persónuvernd og er lögreglustjóraembættinu gefin frestur til 3. desember til að svara.

„Það er alveg ljóst að ég mun senda Persónuvernd bréf fyrir hönd Tony og kalla eftir því að vera upplýstur um það sem þar gerist,“ segir Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Tony Omos. Hann segist jafnframt vonast til að Omos geti aftur sameinast barni sínu og barnsmóður á Íslandi.
Stefán Karl ætlast til að því verði svarað hvernig það samrýmist reglum að umræddar upplýsingar voru sendar frá lögreglustjóranum til aðstoðarmannsins.
En í svari við fyrirspurn fréttastofunnar til Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu, um rétt aðstoðarmanns og ráðuneytisins til að afla upplýsinga sem þessara, segir m.a.:
„Samkvæmt framangreindu hafa aðstoðarmenn ráðherra ekki heimild til að óska eftir gögnum um einstök mál sem heyra undir ráðherra sem stjórnvaldshafa, heldur einungis gögnum sem varða pólitísk störf ráðherra eða stefnumótun. Það á jafnt við um upplýsingar frá lögreglu sem aðrar.”
Þá kemur fram í svari við ósk fréttastofunnar til ráðuneytisins um að fá afhent afrit af greinargerðinni sem lögreglustjórinn sendi til aðstoðarmannsins, að greinargerðin sé ekki til í málaskrá ráðuneytisins.
Sem þýðir m.ö.o. að lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi pólitískum aðstoðarmanni innanríkisráðherra skjal sem hann mátti ekki biðja um og aðstoðarmaðurinn skráði ekki skjalið í gagnasafn ráðuneytisins.