Innlent

Björgunarsveitir að störfum um allt land í nótt

Björgunarsveitir voru kallaðar út víðsvegar um land vegna óveðursins sem gekk yfir landið í gærkvöldi og í nótt en ekki er vitað um nein slys á fólki.

Á þriðja tug beiðna um aðstoð bárust á höfuðborbgarsvæðinu vegna þess að hurðir höfðu fokið upp, gluggar brotnað, klæðningar og plötur losnað af húsum og lausamunir fokið um á byggingarsvæðum, svo eitthvað sé nefnt.

Slökkviliðinu bárust níu beiðnir um aðstoð þar sem vatn hafði lekið inn í íbúðarhús vegna stíflaðra niðurfalla. Öllum leiðum frá höfuðborgarsvæðinu nema Reykjanesbraut var um tíma lokað í gærkvöldi vegna ófærðar eða óveðurs og færð spilltist víða um land.

30 björgunarsveitarmenn á níu tækjum  frá fimm björgunarsveitum voru langt fram á nótt að aðstoð vegfarendur og lögreglu við lokanir vega á Suðurlandi, einkum á Hellisheiði og í þrengslum, þar sem þó nokkrir bílar voru skildir eftir.

Björgunarsveitir voru kallaðar út í Ólafsvík , Akranesi, Borgarnesi, Patreksfirði, Suðurnesjum Vestmannaeyjum, Ísafirði og Suðureyri vegna foks og til að aðstoða vegfarendur og á sjötta tímanum í morgun var björgunarsveitin á Vopnafirði kölluð út til að hefta þar fok, en þar var veðrið ekki gengið yfir.

Allt tiltækt starfsfólk framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar hefur unnið hörðum höndum í alla nótt við að hreinsa snjó og krapa af akbrautum og göngustígum og við að hreinsa frá niðurföllum þar sem stórir pollar hafa víða myndast. Þótt aðalleiðir séu orðnar nokkukð góðar eru víða erfið aksstursskilyrði í fáförnum hliðargötum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×