Sport

Fyrsti þeldökki heimsmeistarinn í sundi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Alia Atkinson varð um helgina fyrsti þeldökki sundmaðurinn sem vinnur heimsmeistartitil í sundi er hún vann gull í 100 m bringusundi á HM í 25 m laug í Doha í Katar.

Atkinson er 25 ára og vann tvenn silfurverðlaun á HM í 25 m laug fyrir tveimur árum. En nú bætti hún um betur er hún kom fyrst í mark á 1:02,36 mínútum. Um leið jafnaði hún heimsmet Ruta Meilutyte frá Litháen sem mátti sætta sig við silfur að þessu sinni.

Sigurinn kom Atkinson mjög á óvart enda var Meilutyte í forystu framan af í sundinu. „Ég ætlaði ekki að trúa þessu,“ sagði hún við fjölmiðla eftir sigurinn. „Það tók mig dágóða stund að átta mig á öllu saman.“

„Vonandi verður þetta til þess að fleiri þekki mig og að íþróttin verði vinsælli í Jamaíku og karabíska hafinu,“ sagði hún.

Hrafnhildur Lúthersdóttir keppti í sömu grein og hafnaði í 22. sæti í undanrásum á nýju Íslandsmeti, 1:06,26 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×