Viðskipti innlent

Verðsamráðsmálið: Telur að ekki hafi verið lagaskilyrði fyrir lögreglurannsókn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frávísunarkrafan er byggð á því að Samkeppniseftirlitið kærði manninn ekki til lögreglu í kjölfar rannsóknar eftirlitsins á meintu verðsamráði fyrirtækjanna.
Frávísunarkrafan er byggð á því að Samkeppniseftirlitið kærði manninn ekki til lögreglu í kjölfar rannsóknar eftirlitsins á meintu verðsamráði fyrirtækjanna.
Fyrirtaka var í verðsamráðsmáli sérstaks saksóknara á hendur þrettán starfsmönnum Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins í dag í Héraðsdómi Reykjaness. Verjandi eins mannanna fór fram á það fyrir héraðsdómi að ákæru á hendur skjólstæðingi sínum yrði vísað frá.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í verðsamráði verslananna til að koma í veg fyrir að þær ættu í samkeppni. Hann var um tvítugt þegar meint brot hans áttu sér stað og starfaði sem sölumaður í einni af verslununum. Er hann ákærður fyrir að hafa athugað verð samkeppnisaðila í símtali við einn af starfsmönnum þeirrar verslunar. Upplýsti maðurinn svo yfirmann sinn um verðin í tölvupósti.

Frávísunarkrafan er byggð á því að Samkeppniseftirlitið kærði manninn ekki til lögreglu í kjölfar rannsóknar eftirlitsins á meintu verðsamráði fyrirtækjanna. Því hafi ekki verið lagaskilyrði fyrir því að hefja sakamálarannsókn þar sem þau brot sem manninum er gefið að sök hafi aðeins getað sætt lögreglurannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins.

Verjandi mannsins sagði að með því að kæra hann ekki hefði eftirlitið bundið hendur lögreglu. Lögreglu hefði ekki verið heimilt að hefja sakamálarannsókn vegna þessa. Verjandinn sagði að svo virtist sem að Samkeppniseftirlitið hefði ekki talið að maðurinn hefði gerst sekur um brot á samkeppnislögum, eða í öllu falli að í samræmi við alvarleika brotsins hafi ekki verið ástæða til þess að kæra hann til lögreglu.

Þessu hafnaði ákæruvaldið og sagði að ekki þyrfti sérstaklega að nafngreina einstakling í skriflegri kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Þá hefði lögregla heimild til þess samkvæmt sakamálalögum að hefja rannsókn að eigin frumkvæði þegar grunur vaknar um refsiverða háttsemi eða ný gögn koma fram í málum.

Það sé því ekki undir sérhæfðu stjórnvaldi komið, eins og Samkeppniseftirlitinu, að ákveða hvort mál er rannsakað eða ekki, heldur liggur sú ákvörðun hjá lögreglu.


Tengdar fréttir

Segir landsmenn hafa tapað á verðsamráði

Landsmenn töpuðu á samkeppnislagabrotum Húsasmiðjunnar og Byko og borga nú sektina fyrir það sem aðaleigendur Landsbankans, segir í fréttatilkynningu frá Múrbúðinni.

Verðsamráðsmálið tekið fyrir í febrúar

Aðeins einu sinni áður hefur verið höfðað refsimál á hendur einstaklingum hér á landi. Þá voru forstjórar Olís, Skeljungs og Esso sakaðir um verðsamráð.

Telur samráðið eiga sér lengri sögu

Samkeppnishamlandi verðþrýstingur byggingarvörufyrirtækjanna Byko og Húsasmiðjunnar neyddi Baldur Björnsson til að loka grófvörudeild Múrbúðarinnar. „Við vorum bara tæklaðir,“ segir Baldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×