Innlent

Myndband af ferðalagi á vörubíl í óveðrinu í morgun

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá skjáskot úr myndbandi Halldórs.
Hér má sjá skjáskot úr myndbandi Halldórs.
„Manni finnst ekkert sniðugt að vera á 35 tonna tæki þegar hviðan grípur mann og hálka er á vegum,“ segir Halldór Sigurðsson vörubílstjóri. Halldór birti myndband á Youtube-síðu sinni sem hann tók úr vörubíl sínum í morgun þegar hann hugðist aka frá Reykjavík og austur í Bolöldu.

„Það var alveg blint á milli, maður sá bara hvítt. Þegar svo er sér maður hvorki veginn né annað,“ segir Halldór um færið í morgun.



Hann segir ekkert ferðaveður hafa verið og ákvað að snúa við. „Það þykjast margir bílstjórar vera rosalega brattir í svona veðri. En í raun er maður hræddur. Ef maður væri á fólksbíl væri þetta annað mál, en þegar maður er á svona stórum bíl er þetta ekkert grín. Maður verður hræddur þegar bíllinn fer að skauta. Hjartað erður voðalega lítið. En maður getur huggað sig við það að vita að maður hefur rosalega góða sögu á næsta fylleríi,“ útskýrir Halldór hlæjandi.

Hann hvetur bílstjóra til þess að hlusta á viðvaranir. „Þessir veðurfræðingar geta haft rétt fyrir sér, þó þeir séu opinberir starfsmenn. En sumir telja sig vita vetur og þess vegna er búið að setja upp hlið við Litlu kaffistofuna, svo fólk fari ekki þarna, þrátt fyrir að búið sé að loka veginum."

Halldór segir í morgun hafi ekkert annað verið í stöðunni en að snúa við. „Ég fann stað til að snúa við þarna í grennd við Skíðaskálann og hélt heim á leið.“

Halldór hefur áður birt myndbönd af viðburðaríkum bílferðum þar sem veðrið hefur verið slæmt. Hér að neðan má sjá myndaband sem hann tók fyrir tveimur vikum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×