Fótbolti

Tvö stig í súginn hjá Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrice Evra og Angelo Ogbonna fagna marki þess fyrrnefnda.
Patrice Evra og Angelo Ogbonna fagna marki þess fyrrnefnda. vísir/afp
Juventus og Sampdoria skildu jöfn, 1-1, í fyrsta leik dagsins í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Juventus er enn í toppsæti deildarinnar, en Roma, sem situr í öðru sæti, getur minnkað forystu ítölsku meistaranna í eitt stig með sigri á Genoa seinna í dag.

Patrice Evra kom Juventus yfir á 12. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Claudio Marchisio. Þetta var fyrsta Frakkans fyrir Juventus en hann gekk til liðs við félagið frá Manchester United í sumar.

Juventus hefur nú skorað í 38 deildarleikjum í röð á heimavelli. Liðinu mistókst síðast að skora á Juventus Stadium í markalausu jafntefli gegn Lazio fyrir tveimur árum.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik, en á 51. mínútu jafnaði varamaðurinn Manolo Gabbiadini metin með skoti fyrir utan vítateig eftir sendingu frá Brasilíumanninum Éder. Þetta var aðeins sjötta markið sem þeir svarthvítu fá á sig í deildinni í vetur.

Ítölsku meistararnir sóttu stíft það sem eftir lifði leiks en án árangurs. Niðurstaðan 1-1 jafntefli.

Sampdoria er í 5. sæti deildarinnar með 26 stig, en lærisveinar Sinisa Mihajlovic eru í góðri stöðu til að ná Meistaradeildarsæti í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×