Viðskipti innlent

Sérstakur og Jón Óttar gefa skýrslu vegna hlerana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Óttar Ólafsson
Jón Óttar Ólafsson Vísir/Pjetur/Daníel
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að kalla skuli sérstakan saksóknara, Ólaf Þór Hauksson, og fimm aðra starfsmenn embættisins til skýrslutöku vegna hlerana í tengslum við Al-Thani málið. Á meðal þeirra er Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður sérstaks saksóknara, sem mjög hefur gagnrýnt starfsaðferðir embættisins, og þá ekki síst hleranirnar. Björn Þorvaldsson, saksóknari, hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, fór fram á skýrslutökurnar áður en að málið verður tekið til meðferðar í Hæstarétti. Hreiðar Már var í héraði dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi vegna aðkomu sinnar að Al-Thani málinu.

Hörður Felix fór jafnframt fram á að tveir rannsakendur til viðbótar myndu gefa skýrslu til að varpa ljósi á það hvers vegna Halldór Bjarkar Lúðvíksson, fyrrverandi starfsmaður fyrirtækjasviðs Kaupþings, fékk stöðu vitnis eftir að hafa verið með stöðu sakbornings.

Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu Harðar á þeim forsendum að útskýrt hefði verið skriflega af sérstökum saksóknara hvers vegna réttarstöðu Halldórs var breytt. Hörður segist í samtali við Vísi ekki hafa ákveðið hvort hann kæri úrskurðinn til Hæstaréttar.

Lögmaður Ólafs Ólafssonar, Hákon Árnason, fór einnig fram á að fá að kalla nýtt vitni til skýrslutöku, Eggert J. Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg. Héraðsdómur féllst hins vegar ekki á þá kröfu. Ekki liggur fyrir hvort að sá úrskurður verði kærður til Hæstaréttar, en Ólafur var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Al-Thani málinu.


Tengdar fréttir

Allir sakborningar áfrýja niðurstöðu í Al-Thani máli

Allir sakborningar í Al-Thani málinu ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Málsvarnarlaun sem Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings var dæmdur til að greiða verjanda sínum við í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu eru hæstu málsvarnarlaun sem dæmd hafa verið í sakamáli hér á landi.

Skýrslutökurnar varpi ljósi á ólögmætar símhleranir

Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, lagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fram kröfu þess efnis að skýrslur verði teknar af sjö aðilum sem tengjast Al-Thani málinu svokallaða. Meðal þeirra eru rannsakendur sérstaks saksóknara.

Saksóknari mótmælti skýrslutökum í Al-Thani málinu

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Ólafur Ólafsson fjárfestir krefjast þess að teknar verði skýrslur af vitnum á ný og tölvupóstssamskipti sérstaks saksóknara opinberuð.

Dómur í Al-Thani máli í dag - allt sem þú þarft að vita

Dómur verður kveðinn upp í Al-Thani málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag kl. 15. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings og aðrir sakborningar í málinu gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Al-Thani málið: Þungir fangelsisdómar yfir Kaupþingsmönnum

Dómur var kveðinn upp í Al-Thani málinu nú rétt í þessu. Sakborningar fengu eftirtalda dóma: Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fimm ár og hálft ár. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, fimm ár. Ólafur Ólafsson, fjárfestir, 3 og hálft ár. Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg 3 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×