Innlent

Flugmaður TF-KEX ákærður fyrir að hafa ekki gætt nægrar aðgæslu

Bjarki Ármannsson skrifar
TF-KEX brotlenti á skírdag 2010 með þrjá farþega innanborðs.
TF-KEX brotlenti á skírdag 2010 með þrjá farþega innanborðs. Mynd/Úr skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa
Ríkissaksóknari hefur ákært flugmann Cessna-flugvélarinnar TF-KEX, sem brotlenti á skírdag árið 2010, fyrir almannahættubrot, líkamsmeiðingar af gáleysi og brot gegn loftferðalögum. Þrír farþegar voru um borð í vélinni og slösuðust allir talsvert.

Vélin brotlenti í hlíðum Langholtsfjalls í Árnessýslu, skammt frá Flúðum, þann 1. apríl 2010. Þar er sumarbústaðabyggð og sögðu sjónarvottar að flugvélin hefði flogið lágt yfir svæðinu.

Í ákæru ríkissaksóknara er flugmaðurinn sagður ekki hafa gætt nægrar aðgæslu við undirbúning og stjórn flugvélarinnar. Þar kemur einnig fram að maðurinn hafði enga reynslu af því að fljúga slíkri vél. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem kom út í fyrra, segir að maðurinn hafi flogið vélinni yfirhlaðinni, í lítilli hæð yfir sumarbústaðabyggðinni án þess að hafa framkvæmt massa- eða jafnvægisútreikninga.

Flugvélin missti að lokum hraða og hæð í krappri beygju og skall í jörðina. Farþegarnir þrír, tveir karlmenn og ein kona, slösuðust öll talsvert og voru flutt á gjörgæsludeild Landspítalans. Einn farþeganna hryggbrotnaði og krefst þess í einkaréttarkröfu að hinn ákærði greiði honum eina milljón króna í miskabætur.

Ríkissaksóknari krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt almennum hegningarlögum nema almannahættubrot allt að þremur árum í fangelsi og líkamsmeiðingar af gáleysi allt að fjórum árum.


Tengdar fréttir

Of þungri vél brotlent við sumarhús

Flugvél sem hrapaði í flugi yfir sumarhúsabyggð var ofhlaðin og í of lítilli hæð til að ná krappri beygju sem flugmaðurinn reyndi að taka. Annar flugmaður, sem var farþegi í vélinni og slasaðist illa, var ósáttur við aðfarir hins en sagði þó ekkert.

Þriðja slysið í lágflugi á fjórum árum

Flugslysið við Hlíðarfjall á Akureyri í fyrra sem Vísir hefur fjallað um í dag er það þriðja á rúmum fjórum árum þar sem flugvél var í lágflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×