Skoðun

Er eitthvað að frétta af náttúrupassa?

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Eitt fyrsta verk stjórnarmeirihlutans eftir kosningarnar í fyrra var að lækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu úr 14% í 7%. Þegar það var gert var áætlað að tekjur ríkissjóðs myndu lækka um 1,5 milljarða í ár vegna þessa. Ljóst er að tekjutapið er miklu meira, vegna þess að ferðamannastraumurinn hefur aldrei verið meiri.

Ríkisstjórnin er nefnilega þeirrar skoðunar að ríkissjóður eigi að sækja sem allra minnstar tekjur til atvinnuveganna, jafnvel þótt starfsemin blómstri sem aldrei fyrr. Atvinnurekendur, hvort heldur í ferðþjónustu eða sjávarútvegi, eru sterkur hagsmunahópur. Ríkisstjórnin vill ekki styggja þá og einungis leggja þau gjöld á atvinnuvegina sem „full sátt er um“. Eins og það sé líklegt að hagsmunahópar segi einhvern tímann: „já, þetta er sanngjarnt, við ráðum vel við þetta.“

Ef atvinnuvegirnir leggja ekki sinn skerf til samfélagsþjónustunnar, þá verður skattbyrði hinna – launafólks – þyngri. Það er ekki flóknara en það.

Í stað almennrar skattlagningar vill stjórnarmeirihlutinn leggja á gjöld; þeir borga sem njóta. Nú er liðið meira en ár síðan ruglið um náttúrupassann byrjaði. Gjaldtökuna sem allir eiga að vera sáttir við. Landeigendur eru svo sáttir við málatilbúnaðinn, að þeir hafa lagst út í lögleysu og innheimt gjöld af fólki sem á leið um lendur þeirra.

Ferðamálaráðherrann er steinhissa, skilja menn ekki að hún er að leysa þetta, hefur átt fundi með fjölda fólks um málið. Auðvitað hefur ekkert komið út úr þeim fundarhöldum öllum saman. Engar tillögur eru komnar fram.

Í stjórnarandstöðu var ráðherrann hávaðasöm um að ekki mætti leggja á gjöld sem varða ferðaþjónustuna nema með góðum – löngum – fyrirvara. Mig minnir að í þeirri andrá hafi verið talað um allt að 18 mánuði.

Ef ríkistjórnin leggur fram tillögur strax á haustþingi um hvernig haga eigi tekjuöflun til að standa undir uppbyggingu innviða í þessari nú mikilvægustu eða næstmikilvægustu atvinnugrein landsins, má gera ráð fyrir að þær ráðstafanir taki gildi árið 2016. Það er nú aldeilis munur að hafa röggsamt fólk í brúnni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×