Skoðun

Aukið samráð og fleiri valkostir

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Uppbygging flutningskerfis raforku og bætt afhendingaröryggi eru meðal brýnustu verkefna sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Flutningskerfið annar ekki raforkuþörf allra svæða landsins og hamlar á meðan mikilvægri atvinnuuppbyggingu. Nauðsynleg uppbygging kerfisins er dýr og þarfnast mikils skipulags og forgangsröðunar. Taka þarf tillit til fjölbreyttra sjónarmiða og hagsmuna, m.a. hvort leggja skuli raflínur í jörð eða ofanjarðar. Þegar slíkir hagsmunir eru undir þarf að vanda til verka og hafa víðtækt samráð til að skapa sem mesta sátt um stefnumótun í málaflokknum.

Slík vinna hefur verið unnin í mínu ráðuneyti allt síðasta ár. Í fyrra lagði ég skýrslu nefndar um raflínur í jörð til umfjöllunar á Alþingi og skilaði atvinnuveganefnd þingsins greinargóðu nefndaráliti sem veitir góða leiðsögn frá þinginu. Samhliða hófst í ráðuneytinu endurskoðun raforkulaga í samráði við hagsmunaaðila þar sem ætlunin var að skýra betur stöðu kerfisáætlunar Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins. Drög að frumvarpi voru sett á heimasíðu ráðuneytisins 27. júní sl. í opið umsagnarferli sem stendur til 20. ágúst. Því næst verður unnið úr athugasemdum sem berast og stefni ég að því að leggja frumvarpið fram á Alþingi í haust.

Grunnmarkmið er aukið samráð fyrr í ferlinu

Lagt til að ákvæði laganna um kerfisáætlun verði gerð mun ítarlegri en áður auk þess sem mælt er fyrir um hlutverk Orkustofnunar í tengslum við kerfisáætlun. Eitt af grunnmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja sem víðtækast samráð við hagsmunaaðila við undirbúning og vinnslu kerfisáætlunar og þar með við uppbyggingu flutningskerfisins. Þetta hefur ráðuneytið haft að leiðarljósi frá upphafi og átt afar farsælt samráð m.a. við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það góða samráð var staðfest í frétt á vefsíðu þeirra þann 27. júní þar sem segir m.a.: „Samráð hefur verið haft um efni frumvarpsins við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og hefur verið tekið ágætt tillit til sjónarmiða þeirra við gerð frumvarpsins.“

Frumvarpinu er ætlað að efla samráð strax á fyrstu stigum undirbúnings í stað þess að málin komi inn á borð sveitarstjórna á lokastigum, eins og nú er. Með kerfisáætlun verður annars vegar stillt upp tíu ára langtímaáætlun og hins vegar þriggja ára framkvæmdaáætlun. Landsneti verður gert að hafa ítarlegt samráð við sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila og leggja mat á fleiri en eina útfærslu. Það er síðan hlutverk Orkustofnunar að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun og að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila í því ferli. Má því segja að um tvöfalt samráðsferli sé að ræða til að tryggja að tekin sé afstaða til allra sjónarmiða. Aðkoma sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila er því styrkt verulega frá því sem nú er.

Umfjöllun Fréttablaðsins

Fréttablaðið fjallaði í síðustu viku um frumvarpsdrögin en í stað þess að fjalla um frumvarpið í heild var staldrað við einstakar málsgreinar þannig að lesandinn átti síður kost á að glöggva sig á markmiðum og meginatriðum frumvarpsins. Fjallað var um frumvarpsdrögin eins og þau væru endanleg, en ekki sem drög í almennu umsagnarferli. Fullyrt var að kostnaður við raflínur í jörð myndi lenda á sveitarfélögum eins og það yrði almenn regla, en það er einfaldlega rangt.

Sérstaklega var tekið fram að ég hafi ekki viljað tjá mig við blaðamanninn, sem óskaði eftir viðbrögðum mínum við einstökum málsgreinum einstakra greina. Á meðan mál er í opnu umsagnarferli er ekki óeðlilegt að ráðherra kjósi að halda sig til hlés í opinberri umræðu, enda tilgangurinn með ferlinu að gefa aðilum færi á að tjá sig um efni frumvarpsins. Sérfræðingar ráðuneytisins veittu blaðamanninum hins vegar allar upplýsingar um málið almennt og um einstakar greinar þess. Ég ítreka að frumvarpið er enn í vinnslu og mun ekki líta dagsins ljós í endanlegri mynd fyrr en að loknu umsagnarferlinu.

Ég vil að lokum enn ítreka að málið hefur verið unnið í sátt og góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga – þó menn hafi allan tímann gert sér grein fyrir því að einstök sveitarfélög og aðrir myndu senda inn athugasemdir. Ég hvet sveitarstjórnarmenn og alla áhugasama til þess að kynna sér frumvarpsdrögin og senda inn athugasemdir fyrir 20. ágúst.

Þegar endanlegt frumvarp liggur fyrir er mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að útskýra efni þess og svara fyrir það að öðru leyti, hvort sem er við Fréttablaðið eða aðra. En á meðan það er í opnu umsagnarferli er rétt að frumvarpsdrögin tali fyrir sig sjálf.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×