Erlent

Borgarstjóri í Úkraínu varð fyrir skoti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vopnaður aðskilnaðarsinni fyrir utan stjórnsýslubyggingu í borginni Slavjansk.
Vopnaður aðskilnaðarsinni fyrir utan stjórnsýslubyggingu í borginni Slavjansk. Nordicphotos/AFP
Hennadí Kernes, borgarstjóri í Kharkív í austanverðri Úkraínu, varð fyrir skoti í morgun. Skotið kom í bakið og reyna læknar nú að bjarga lífi hans, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu hans.

Kernes var stuðningsmaður Viktors Janúkóvits forseta, sem hrökklaðist frá völdum í vetur. Hann hefur hins vegar ekki stutt aðskilnaðasinna í austanverðu landinu heldur vill halda Úkraínu óskiptri.

Kharkív er næst stærsta borg Úkraínu. Aðskilnaðarsinnar hafa verið með stjórnsýslubyggingar í borginni á sínu valdi undanfarið, rétt eins og í fleiri borgum í austanverðu landinu.

Aðskilnaðarsinnar hafa síðan á föstudag haft hóp erlendra eftirlitsmanna frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, á sínu valdi. Þeir saka eftirlitsmennina um njósnir á vegum NATO.

Einn þeirra var látinn laus í gær, en hinir sjö eru enn í haldi uppreisnarmanna. Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, fordæmdi gíslatökuna harðlega í morgun og hvetur Rússa til að grípa nú til sinna ráða til að fá mennina látna lausa. Jafnframt skorar hann á Rússa að tala hreint út um að þeir styðji ekki þessa gíslatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×