Lífið

Drepur meindýr og safnar plötum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ólafur Sigurðsson er metnaðarfullur plötuspilari og meindýraeyðir í hjáverkum.
Ólafur Sigurðsson er metnaðarfullur plötuspilari og meindýraeyðir í hjáverkum. Fréttablaðið/Daníel
„Ég á rúmlega þrjátíu þúsund grammófónplötur,“ segir Ólafur Sigurðsson, plötusafnari og meindýraeyðir. Hann safnar líka spilurum og getur spilað allar þær gerðir af plötum sem hann á. „Við erum með fón á hverri hæð,“ segir hann og hlær en í safninu eru nú um tuttugu og fjórir plötuspilarar.

Ólafur er í Hljómplötuklúbbnum en auk hans eru í honum sjö virkir plötusafnarar sem hittast heima hjá hver öðrum, deila fróðleik, skiptast á plötum og sögum.

„Það er oft leitað til okkar af því að menn vantar lögin. Jónatan Garðarsson var að gefa út Ríó tríó-disk um daginn og þá voru hreinlega ekki til neinir masterar af tveimur plötum. Þannig að hann fékk hjá mér tvær plötur í toppstandi,“ útskýrir hann. Klúbburinn fær stundum heimsóknir frá erlendum fræðimönnum í tónlistarbransanum. Til að mynda kom nýlega Michael Biel frá Bandaríkjunum en hann er prófessor og stórsafnari í plötubransanum til að fræða hópinn um tónlist á 20. öldinni.

Gersemar leynast í safni Ólafs. Eitt sinn seldi hann plötu á E-bay fyrir um 170 þúsund krónur.Fréttablaðið/Daníel
„Mikil ósköp,“ svarar Ólafur spurður hvort hann spili nokkuð allar þær plötur sem hann á. „Til dæmis tek ég oft litlu plöturnar upp í sumarbústað og þegar maður fer í partí eða heimsóknir til vinanna,“ segir Ólafur sem ferðast með ferðafón þegar svo ber undir. „Það vekur alltaf jafnmikla lukku, allir gömlu hittararnir. Ég hef meira að segja haldið 78 snúninga plötuball, og þá var ég að DJ-a með 78 snúninga plötum eingöngu.“

Hann segist þó ekki eiga safnið einn. „Ég á það með henni Önnu minni,“ segir Ólafur hlýjum rómi og á þar við Önnu Bergsteinsdóttur, eiginkonu sína. 

Plötusafn þeirra hjóna er heima hjá þeim í Hafnarfirði en á heimili þeirra er herbergi sem þau kalla plötuherbergið. „Tuttugu og fimm fermetra herbergi fullt af plötum og bókum,“ segir Ólafur. „Og þetta er líka í bílskúrnum.“ Hann hyggst þó minnka safnið núna enda orðið talsvert stórt. 

Hann nefnir þó að safnið sé í eðli sínu tónlistarsafn miklu frekar en plötusafn. „Þetta er ódýrasta leiðin til að komast yfir góða tónlist, að safna vínylplötum.“

Ólafur safnar árituðum plötum og segist eiga áritaða plötu frá öllum helstu tónlistarmönnum Íslands hér á árum áður. Þar ber að nefna Ellý Vilhjálms og Hauk Morthens.Mynd/Daníel
Björg er dóttir Ólafs og hún hefur erft plötuáhuga föður síns og gerst safnari eins og hann.Mynd/Daníel
Ólafur geymir miklar gersemar í safni sínu.Mynd/Daníel





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.