Skoðun

Um flutning Fiskistofu

Árni Páll Árnason skrifar
Fiskistofumálið hefur margar hliðar. Það er gott að styðja við atvinnuuppbyggingu í landsbyggðunum og það er ekkert sjálfgefið að öllum störfum sé markaður staður á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna hefur Samfylkingin talað fyrir störfum án staðsetningar og sýnt þá stefnu í verki þegar ný verkefni hafa orðið til sem þurft hefur að leysa, til dæmis þegar þurfti að fjölga mjög þýðendum vegna aðildarumsóknarinnar. Þess vegna höfum við komið í gegn stórum áföngum til jöfnunar húshitunarkostnaðar og flutningskostnaðar og viljum ganga þar enn lengra. Þess vegna höfum við lagt höfuðáherslu á háhraðatengingar og samgöngubætur um allt land.

Það er ekki jafn sjálfgefið að flytja stofnanir með manni og mús milli landshluta. Reynslan hefur ekki sýnt að slíkar ákvarðanir eldist vel og tilraunir í þá veru hafa runnið út í sandinn.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú er greinilega óundirbúin og órökstudd. Engin greining hefur verið unnin á kostnaði og ábata og enginn veit hversu mörg störf eiga að flytjast norður.

En ákvörðunin hefur þar fyrir utan á sér sérkennilegan brag. Það er eins og það sé orðið markmið forystu ríkisstjórnarinnar að gera út á þá togstreitu sem óhjákvæmilega er milli höfuðborgar og landsbyggðanna og magna hana sem kostur er, til að skapa flokkunum sérstöðu og auka fylgi þeirra í hinum dreifðu byggðum. „Við erum sko alvöru Íslendingar“ gæti verið einkunnarorð þessarar stefnu.

Samband höfuðborgar og landsbyggða verður að byggja á gagnkvæmri virðingu. Höfuðborgin þarf á landsbyggðunum að halda og landsbyggðirnar á höfuðborginni. Landsbyggðirnar eiga undir högg að sækja og þurfa stuðnings við, enda býr fólk þar oftar við lakari kjör og félagslega stöðu. Við þurfum öfluga byggðastefnu sem byggir á bestu fáanlegri þekkingu, en ekki tilviljanakenndar ákvarðanir einstakra ráðherra í vinsældakapphlaupi.

Það verður enginn meiri eða betri Íslendingur á að búa á einum stað eða öðrum og það er engum til góðs að kynda glæður óvildar að óþörfu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×