Innlent

"Hvers vegna játar manneskja á sig morð sem hún hefur ekki framið?"

Birta Björnsdóttir skrifar
Simon Cox og félagar hans hjá breska ríkisútvarpinu hafa dvalið hér á landi undanfarna vikuna við rannsóknarvinnu og upptökur á heimildarmynd og útvarpsþætti um Guðmundar- og Geirfinnsmálin svokölluðu.

„Það eru ekki margir sem þekkja þetta mál utan Íslands,“ segir Simon Cox.

Útvarpsþátturinn sem um ræðir nefnist The Report en þar er fjallað um ýmis málefni um heim allan. En hvernig enduðu Simon og félagar á Íslandi?

„Við áttum í viðræðum við Gísla Guðjónsson, réttarsálfræðing, og hann sagði okkur frá málinu. Hann hefur komið að aragrúa mála um heim allan en segir þetta mál vera versta réttarmorð sem framið hefur verið,“ segir Simon.

Hann tekur viðtöl við sakborninga í málunum, fjölskyldur þeirra og lögfræðinga svo fáir einir séu nefndir.

„Þeir einu sem ekki hafa viljað veita okkur viðtöl eru lögreglumennirnir sem komu að rannsókn málsins á sínum tíma. En við vonum að þeir skipti um skoðun, við viljum heyra í öllum sem komu að málinu.“

Simon segir ótalmargt  afar áhugavert við Guðmundar og Geirfinnsmálin, sem sannarlega eigi erindi við umheiminn.

„Það eru þessar fölsku játningar sem eru svo merkilegar. Hvers vegna játar manneskja á sig morð sem hún hefur ekki framið? Einnig eru dagbækur einhverra sakborninganna sem komu fram fyrir ekki svo löngu áhugaverðar, og veita glænýja sýn á málið,“ segir Simon.

Heimildarmyndin og útvarpsþátturinn verða aðgengileg almenningi á vefsíðu BBC í maímánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×