Tónlist

Fyrstu íslensku dægurstjörnurnar

Sigurður Helgi Oddsson vinnur að rannsókn um M.A.-kvartettinn.
Sigurður Helgi Oddsson vinnur að rannsókn um M.A.-kvartettinn. Vísir/Úr einkasafni
Jón frá Ljárskógum og félaga hans í M.A.-kvartettinum mætti sennilega telja sem fyrstu dægurstjörnur Íslands,“ segir Sigurður Helgi Oddsson, listrænn stjórnandi og skipuleggjandi hátíðartónleika í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum sem fara fram í Vídalínskirkju í Garðabæ klukkan átta í kvöld.

Að sögn Sigurðar verður boðið upp á afar fjölbreytta dagskrá.

„Þetta eru bæði þekkt lög við hans eigin ljóð, og svo frumsamin lög eftir hann sem hafa lítið eða ekkert heyrst. Mörg þeirra eru einstaklega falleg,“ útskýrir hann, en atriðin eru af ýmsum toga. Á tónleikunum verður einsöngur, dúett, kvartett og kór en meðal flytjenda má nefna Karlakór Reykjavíkur og nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins.

„Ég setti mig í samband við öflugt listafólk og stofnaði kvartett við þetta tilefni,“ bætir hann við, en lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg á sínum tíma munu heyrast í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta sinn í 70 ár.

Sigurður er sjálfur að vinna að rannsókn um M.A.-kvartettinn.

„Eins og ég segi eru þetta fyrstu dægurstjörnur Íslands – þeir voru fyrstir til að koma fram og slá svona rækilega í gegn. Á þessum tíma var útvarpið nýkomið og ég hef stundum sagt að M.A.-kvartettinn hafi verið fyrir Ísland á fjórða áratugnum það sem Bítlarnir voru fyrir heiminn á þeim sjöunda,“ segir Sigurður og hlær.

„Svo rækilega sló kvartettinn í gegn að fá hliðstæð dæmi er að finna í íslenskri tónlistarsögu. Jón var þar jafnan fremstur í flokki, bæði þeirra aðalsmerki og höfuðskáld. Í gegnum rannsóknir mínar um þessa merku tónlistarmenn komst ég að því að hann ætti hundrað ára afmæli um þessar mundir og vildi heiðra þá minningu og halda tónleika honum til heiðurs,“ segir Sigurður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×