Myndband sem talið er vera af leiðtoga ISIS-samtakanna að stýra bænahaldi í borginni Mósúl í norðurhluta Írak var birt um helgina.
Í myndbandinu predikar al-Baghdadi mikilvægi jihad eða heilags stríðs. Leiðtoginn bætti við að hann væri hvorki merkilegri né dyggðugri en þeir sem á hlýddu. Myndir af leiðtoga ISIS hafa ekki birst áður opinberlega. Íraska öryggislögreglan vinnur nú að því að ganga úr skugga um að maðurinn á myndbandinu sé raunverulega al-Baghdadi.
Bandarísk yfirvöld hafa boðið 10 milljónir dollara, ríflega 1,1 milljarð íslenskra króna, til höfuðs al-Baghdadi.
Fjögur ár eru síðan al-Baghdadi tók yfir stjórn ISIS sem þá voru hluti af al-Qaida. Undir stjórn al-Baghdadi hafa ISIS orðið sjálfstæð samtök sem stefna að því að stofna sameinað íslamskt ríki í Írak og Sýrlandi.
ISIS, sem stýrt er af súnnítum, hafa náð stjórn á stórum hluta Norður-Íraks. Sjítar hafa hins vegar verið við völd í Írak frá því súnnítanum Saddam Hussein var steypt af stóli árið 2003.
Sókn ISIS hefur valdið auknum þrýstingi á forsætisráðherra Íraks, sjítann Nouri al-Maliki. Forsætisráðherrann hefur verið sakaður um eiga þátt í sókn ISIS með því að neita að deila völdum með súnnítum sem eru minnihlutahópur í landinu.
Al-Baghdadi sést í fyrsta sinn opinberlega
