Aðalmeðferð í málinu hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness. Níu manns voru ákærð vegna mótmælanna sem fram fóru 21. október í fyrra.
Þar sem fjöldi ákærðra og vitna er svo mikill er um mikið púsluspil að ræða. Verjendum hefur hingað til verið margrætt um að samskiptum þeirra við ákæruvaldið um uppröðun ákærðra og vitna hafi verið ábótavant.
Of fá sæti eru í dómsalnum, sem er þéttsetinn, svo margir áhugsamir þurfa að bíða fyrir utan. Áætlað er réttarhöldin muni standa yfir til klukkan fimm í dag.
Í skýrslu lögreglu segir að Gunnsteinn hafi hlaupið fram fyrir gröfu sem notuð var við vegavinnu í hrauninu.
„Þetta var jarðýta,“ sagði Gunnsteinn. Hann sagðist hafa gengið yfir farveg ýtunnar, langt fram fyrir hana, og ekki heft för hennar. Eftir það hafi hann verið handtekinn.
„Það er ekki rétt að kalla þetta handtöku, þetta var einfaldlega líkamleg árás, sem ég varð fyrir,“ sagði Gunnsteinn. Hann tók einnnig fram að hann hefði ekki sýnt neinn mótþróa.
„Ég var á göngu fyrir utan svæðið þegar hópur lögreglumanna þyrptist að mér. Ég sýndi engan mótþróa en þeir þröngvuðu höndum mínum aftur fyrir bak. Það sem verra er, þeir tóku fram plastbönd til að herða að höndum mínum.“
Gunnsteinn sagðist vera tónlistarmaður og sagðist hann þora að fullyrða að hann væri þekktur sem slíkur.

„Ég bað hann um að herða ekki of hart, en hann varð ekki við því.“ Gunnsteinn segir að rektor listaháskólans, þar sem hann kennir, hafi séð aðfarirnar og reynt að grípa inni. Honum hafi þó verið haldið í burtu.
„Það sem er einkennilegast er að lögreglumennirnir sem fylgdu mér neyddu mig inn fyrir bannsvæðið sem ég ætlaði ekki inn á. Mér var aldrei tilkynnt að ég væri handtekinn. Þeir þyrptust að mér og fóru með mig í áttina að lögreglubíl sem var langt í burtu.“
Gunnsteinn var færður í fangaklefa eftir handtökuna.
„Maður skyldi halda að þegar bönd eru hert að höndum listamanns skyldi ekið með hann á sjúkrahús,“ sagði Gunnsteinn. Þess í stað hafi hann verið færður í fangaklefa og hann látinn dúsa þar.
Lögreglumaður segir aftur á móti að Gunnsteinn hafi rifið niður borða og hlaupið í veg fyrir gröfuna. Því hafi ákvörðun verið tekin um að handtaka hann.