Erlent

Porosjenkó boðar aukna sjálfsstjórn austurhéraðanna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Í austanverðri Úkraínu segjast harðir aðskilnaðarsinnar enn stefna á að lýsa yfir sjálfstæði.
Í austanverðri Úkraínu segjast harðir aðskilnaðarsinnar enn stefna á að lýsa yfir sjálfstæði. Nordicphotos/AFP
Petró Porosjenkó, forseti Úkraínu, boðar frumvarp um aukna sjálfsstjórn austurhéraðanna. Hann vonast til að geta jafnvel lagt frumvarpið fram strax í næstu viku, en gæti átt erfitt með að finna orðalag sem fengi víðtækan stuðning á þinginu.

Hann tók fram að hann hefði engan áhuga á því að Úkraína yrði sambandsríki, eins og bæði rússneskir ráðamenn og aðskilnaðarsinnar í austurhéruðunum hafa lagt mikla áherslu á.

„Úkraína hefur ekkert gefið eftir hvað varðar óskert umráðasvæði landsins,“ sagði Porosjenkó á ríkisstjórnarfundi sem sýndur var í beinni sjónvarpsútsendingu. Þrátt fyrir aukna sjálfsstjórn austurhéraðanna verði þau áfram óaðskiljanlegur hluti landsins.

Hann fullyrti að eftir að vopnahléssamkomulag var gert á föstudaginn hefðu um 70 prósent rússneskra hermanna, sem voru innan landamæra Úkraínu, horfið aftur til Rússlands.

Jafnframt hefðu uppreisnarmenn látið 700 úkraínska fanga lausa og von væri til þess að 500 til viðbótar fengju frelsið fyrir lok vikunnar. Þrátt fyrir vopnahléið hafa átök brotist út nærri daglega það sem af er vikunni.

Átökin í austanverðu landinu, sem hófust í apríl síðastliðnum, hafa kostað meira en 2.500 manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×