Sport

Kona Federers kallaði Wawrinka grenjuskjóðu í miðjum leik | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stan Wawrinka, Mirka Federer og Roger Federer.
Stan Wawrinka, Mirka Federer og Roger Federer. vísir/getty
Mirka Federer, eiginkona Rogers Federers, stal fyrirsögnunum eftir ótrúlegan sigur Rogers á samlanda sínum Stan Wawrinka í undanúrslitum lokamóts ATP-mótaraðarinnar.

Wawrinka var augljóslega frekar ósáttur undir lok leiksins og hafði átt í orðaskiptum við Mirku eftir að hann klúðraði þremur tækifærum til að vinna viðureignina í þriðja setti.

Í frétt The Telegraph segir að Mirka Federer hafi verið að gera sig klára til að fara úr sæti sínu þegar Wawrinka átti að taka á móti mikilvægri uppgjöf.

Hann hrópaði þá að dómaranum: „Ekki rétt fyrir uppgjöfina,“ en Svisslendingurinn var orðinn ansi þreyttur á hrópum og köllum konunnar á milli fyrirgjafa hjá sér.

Mirka svaraði Wawrinka með því að kalla hann grenjuskjóðu sem heyrist á myndbandinu sem fylgir fréttinni.

Wawrinka spyr dómarann þá hvað hún hafi sagt en á endanum hélt hann leik áfram. Hvort sem Mirka hafi haft svona mikil áhrif á leikinn veit enginn, en Roger Federer kom til baka og tryggði sér sæti í úrslitum gegn Novak Djokovic.

Eftir viðureignina fóru Roger Federer og Stan Wawrinka saman inn í búningsklefa þar sem þeir ræddu málin ítarlega, eftir því sem heimildarmaður Telegraph kemst næst.

Federer spilaði ekki úrslitaleikinn við Novak Djokovic vegna meiðsla og fagnaði Serbinn því sigri á lokamótinu. Hann lýkur árinu í efsta sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×