Erlent

Um tuttugu þúsund komust af Sinjar-fjalli

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þessir Jasídar komust úr herkvínni eftir undankomuleið Kúrda og fengu að fara til Sýrlands.
Þessir Jasídar komust úr herkvínni eftir undankomuleið Kúrda og fengu að fara til Sýrlands. NordicPhotos/Getty
Talið er að um tuttugu þúsund manns af ættbálki Jasída hafi komist niður af Sinjar-fjalli í gærdag en Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í síðustu viku að um fimmtíu þúsund manns sætu þar föst í herkví öfgamanna í samtökunum Íslamskt ríki. (ÍS)

ÍS-liðar réðust inn á landsvæði hinna kristnu Jasída í fjöllunum í síðustu viku og ættbálkurinn flúði af ótta við að verða drepinn en ekki komust allir undan. Talið er að hundruð manna hafi verið drepin nú þegar, konur hafi verið hnepptar í þrældóm og tugir barna látist úr þorsta.

„Við heyrðum í sprengjuvörpum morguninn sem þeir [herskáu íslamistarnir] komu á Sinjar-fjall,“ segir Zahra Jardo, Jasídakona, í samtali við Reuters. „Þannig að við flúðum til fjalla og þeir sem þar eru þjást af miklum þorsta. Það er ekkert vatn. Þeir tóku líka stúlkur og nauðguðu þeim. Þeir segja að Jasídar verði að snúast til íslamstrúar.“

Þeir sem ekki komast af fjallinu hafa úr tveimur jafn slæmum kostum að velja: Annars vegar deyja úr þorsta eða hungri á fjallinum þar sem ÍS leyfir ekki að þangað séu fluttar nauðþurftir eða koma niður af fjallinu og verða slátrað af herflokknum sem ferðast um landið allt og þvingar kristin samfélög til þess að taka upp íslamstrú eða láta lífið ella.

Bandaríkjamönnum hefur fimm sinnum tekist að sleppa matarpökkum til ættbálksins síðan á fimmtudag en talið er að tuttugu slíkar ferðir þyrfti til þess að halda þeim þúsundum einstaklinga, sem fastir eru á fjallinu, á lífi í viku. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lofað að koma fólkinu til aðstoðar með einhverjum hætti en viðurkennir að erfitt sé að koma upp öruggum undankomuleiðum af fjallinu.

Bandarískar orrustuþotur hafa varpað sprengjum á meðlimi ÍS síðan á laugardag en landhernaður kemur þó ekki til greina að sögn forsetans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×