Skoðun

Refsilaust Ísland 2014

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ráðherra heilbrigðismála sagði við Harmageddon í gær að hann væri til í að skoða afglæpavæðingu fíkniefna ef fram koma nægilega góð rök.

Frá því löggjöfin um ávana- og fíkniefni varð til árið 1974 – fyrir 40 árum – hefur lögreglumálum tengdum fíkniefnum stöðugt fjölgað, fjöldi handtekinna manna margfaldast og magn haldlagðra fíkniefna verður æ meira. Þeim sem afplána fangelsisrefsingar hér á landi vegna slíkra brota hefur fjölgað mjög mikið. Árið 1981 var 21 einstaklingur í fangelsi vegna fíkniefnabrota, 112 árið 2006 og 89 árið 2009. Síðastnefnda árið voru slíkir fangar tæplega þriðjungur allra fanga í íslenskum fangelsum.

Hvert fíkniefnabrot og hver refsing kostar háar fjárhæðir. Hverju slíku máli fylgir vinna lögreglumanna, jafnvel tollvarða, síðan lögmanna, ákærenda og dómara og að lokum fangelsisyfirvalda. Í langflestum tilfellum eru það síðan ekki einu sinni þeir sem bera ábyrgð á innflutningi, sölu og njóta þannig hagnaðar af fíkniefnasölunni sem dregnir eru fyrir dóm, heldur „minnimáttar“ mennirnir, neytendur – þeir sem verða undir í samfélaginu vegna vandans.

Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið, skemmst er að minnast „Fíkniefnalauss Íslands árið 2000“, og lagst í herferðir sem hafa það að markmiði að sporna við vandanum. Neyslan heldur þó áfram að vera vandamál sem ekki sér fyrir endann á, jafnvel þótt menn hafi gert sér vonir um annað.

Ráðherra kallar eftir nægilega góðum rökum fyrir afglæpavæðingunni. Rökin eru alls staðar. Það sem ráðherra ætti frekar að skoða er hver rökin fyrir þeirri þungu refsistefnu sem við framfylgjum eru. Miðað við reynsluna, hinn takmarkaða árangur og gríðarlega tilkostnað er erfitt að sjá hver þau eru, ef nokkur.

Í greinargerð með hegningarlögum segir: „Refsingu ber ekki að beita, nema nauðsyn krefji, og ætla megi, að hún nái tilgangi sínum.“ Refsingar fyrir fíkniefnaneyslu ná ekki tilgangi sínum. Samt er þeim beitt. Það ættu að vera nægilega góð rök.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×