Skoðun

Ó-tollaðan ostainnflutning strax

Þórólfur Matthíasson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) fór þess á leit við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með bréfi 26.11.2013 að ráðuneytið heimilaði innflutning á ótolluðu smjöri til landsins þar sem ljóst væri að innlend framleiðsla dygði ekki til að fullnægja eftirspurn eftir rjóma og smjöri í desembermánuði.

Hingað til hafa mjólkurafurðir aðeins verið fluttar inn á grundvelli skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist í alþjóðasamningum. Mjólkurafurðir hafa ekki verið fluttar inn þó einstakar vörutegundir, sumir geita- og ærmjólkurostar til dæmis, séu alls ekki fáanlegir, eða hafi horfið úr verslunum um lengri eða skemmri tíma vegna framleiðslumistaka eða lítillar framleiðslugetu.

Brotið í blað

Beiðni SAM um ótollaðan innflutning smjörs til að vinna gegn vöruskorti brýtur blað í afstöðu talsmanna bænda og afurðastöðva til innflutnings mjólkurvarnings. Fram til þessa hafa talsmenn bænda og afurðastöðva haft mjög neikvæða afstöðu til þess takmarkaða innflutnings mjólkurvara sem stjórnvöld hafa neyðst til að samþykkja í skiptum fyrir lægri tolla á fiski. Talsmenn bænda og afurðastöðva hafa nú uppgötvað að vöruskortur getur eyðilagt mjólkurvörumarkaðinn og að það kunni að þjóna hagsmunum þeirra sjálfra að mjólkurvörur séu fluttar inn ótollaðar.

Hvar eru sérostarnir?

Framboð á sérostum úr kúamjólk á borð við þroskaðan Gouda, Jarlsberg, Gamle Ola, Sorte Sara, Munster, Port Salut, Gorgonsola og Parmesan er af skornum skammti. Eðli máls samkvæmt er ekkert framboð af íslenskum geitamjólkurostum, eða af ærmjólkurostum á borð við Roquefort, enda framleiðsla íslenskrar geitamjólkur og ærmjólkur fremur talin í desilítrum en lítrum og tonnum. Þess vegna er „íslenskur Feta-ostur“ úr kúamjólk en ekki geitamjólk.

Lækkar verðbólgu

Séu rök framkvæmdastjóra Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði í bréfi frá 26.11.2013 fyrir innflutningi smjörs yfirfærð á ostamarkaðinn er dagljóst að heimila eigi tollfrjálsan innflutning allra þeirra osta sem ekki eru framleiddir hér á landi alla mánuði ársins. Boltinn er nú hjá ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunarmála. Ekki er að efa að hann bregðist hratt við þegar svo skýr skilaboð koma frá mjólkuriðnaðinum sjálfum. Ekki skaðar að tollfrjáls innflutningur osta sem ekki eru framleiddir hér á landi stuðlar að lækkun vöruverðs og dregur þar með úr verðbólguþrýstingi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×