Innlent

Skjárinn kærir vegna dreifingar á Biggest loser Ísland

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins telur mikilvægt að bregðast við ólöglegu niðurhali af fullum krafti.
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins telur mikilvægt að bregðast við ólöglegu niðurhali af fullum krafti.
Skjárinn ehf, sem meðal annars á og rekur sjónvarpsstöðina SkjáEinn, hefur kært til lögreglu ólögmæta afritun og dreifingu á þáttum úr hinni vinsælu sjónvarpsþáttaröð „Biggest Loser Ísland.“

Kæran lýtur nánar tiltekið að ólögmætri afritun tiltekins einstaklings á þáttunum og dreifingu þeirra á slóðinni deildu.net.

„Hafa þættirnir fengið gífurlegt áhorf á þeirri vefsíðu og þannig valdið Skjánum miklu tjóni. Að mati Skjásins er hér um skýrt brot á ákvæðum höfundalaga og ákvæðum almennra hegningarlaga,“ segir í tilkynningu Skjásins.

Þá segir jafnframt að samkvæmt upplýsingum frá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er rannsókn langt á veg komin og málið að verulegu leyti upplýst.

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins telur mikilvægt að bregðast við ólöglegu niðurhali sem þessu af fullum krafti.

„Við teljum afar mikilvægt að bregðast hart við hvers kyns brotum á höfundaréttarvörðu efni okkar. Þættirnir eru dýrasta innlenda framleiðsla sem Skjárinn hefur látið ráðast í til þessa. Er hér því um veigamikla hagsmuni að ræða, sem varðir eru af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár. Það þarf að verða vitundavakning í þessum málaflokki, ég var allavega alinn upp við það að ef maður vill ekki greiða fyrir hlutinn fær maður ekki að neyta hans,“ segir Friðrik og hrósar lögreglu fyrir vel unnin störf í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×