Tveir leikmenn í bikarúrslitaleikjum dagsins í körfuboltanum halda upp á afmælið sitt í dag en þá fara fram úrslitaleikirnir í Poweradebikar karla og kvenna. Snæfell mætir Haukum í bikarúrslitaleik kvenna en hjá körlunum spila Grindavík og ÍR um bikarinn.
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR, er 28 ára í dag og Chynna Brown, bandaríski leikmaður Snæfells, heldur upp á 23 ára afmælið sitt með því að reyna að hjálpa kvennaliði Snæfells að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil.
Sveinbjörn Claessen spilaði síðast alvöru leik á afmælisdaginn sinn 22. febrúar 2007 og skoraði þá 20 stig í deildarleik á móti KR í DHL-höllinni en sú frammistaða dugði þó ekki til sigurs. Það var fyrsti leikur liðsins eftir að ÍR-ingar tryggðu sér bikarinn síðast eftir sigur á Hamar/Selfoss í Höllinni 17. febrúar 2007.
Chynna Brown spilaði síðast alvöru leik á afmælisdaginn sinn 22. febrúar 2011 og skoraði þá 15 stig fyrir Texas Tech í tapleik á móti Texas A&M.
Bæði töpuðu þau Sveinbjörn og Chynna því þegar þau spiluðu síðast á afmælisdaginn og gera eflaust allt til þess að upplifa sigurtilfinningu á afmælisdaginn sinn í dag.
