Í tvígang hefur verið sótt að íbúðarhúsi fulltrúa sýslumannsins. Atburðarásin hófst aðfaranótt miðvikudags með því að grímuklæddur maður, vopnaður hnífi, bankaði upp á á heimili fulltrúans og hafði ógnandi tilburði í frammi þegar hann kom til dyra, en honum tókst að flæma manninn á brott. Nokkru síðar um nóttina sá hann hvar bíll hans stóð í björtu báli fyrir utan húsið og kallaði þá á lögreglu og slökkvilið.
Þá um morguninn voru tveir einstaklingar handteknir í miðbæ Akureyrar grunaðir um aðild að málunum tveimur. Voru mennirnir í annarlegu ástandi og var ekki hægt að hefja yfirheyrslur yfir þeim fyrr en seint á miðvikudeginum.

Í gær voru þrír af þessum fimm einstaklingum úrskurðaðir í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 19. nóvember. Allir hafa þeir komið áður við sögu hjá lögreglu og hefur fulltrúi sýslumanns þurft, vinnu sinnar vegna, að vera með mál þeirra á sínum snærum. Því rannsakar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu málið sem árás á opinberan starfsmann.
Lögreglan á Akureyri lýsti sig vanhæfa til að fara með málið vegna tengsla við fulltrúa sýslumannsins og því tók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir rannsókninni miða ágætlega. „Við erum að ná ágætri mynd á þetta en rannsóknin er svo sem enn á frumstigi. Við munum fara í það í rólegheitum næstu daga að yfirheyra sakborninga og vitni og gera rannsókn á bifreiðinni sem brann,“ segir Friðrik Smári.
Íbúar í nágrenni við staðinn voru skelkaðir þegar þeir sáu bílinn alelda á bílaplaninu um morguninn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa sumir íbúarnir haft samband við öryggisfyrirtæki til að láta setja upp öryggiskerfi í íbúðum sínum og margir þeirra hafa yfirfarið læsingar á hurðum og gluggum.