Michael Schumacher er haldið sofandi á sjúkrahúsi í Grenoble í Frakklandi eftir skíðaslys um helgina.
Ástand Schumacher er sagt stöðugt en hann er þó enn í lífshættu. Sabine Kehm, umboðsmaður Schumacher, ræddi málin við fréttamenn í Frakklandi í dag. Bað hún meðal annars fréttamenn um að sýna Schumacher og fjölskyldu virðingu í ljósi atviks sem upp kom á sjúkrahúsinu.
Þannig stöðvuðu öryggisverðir fréttamann í dulargervi prests þar sem hann reyndi að komast inn á herbergi Schumacher á sjúkrahúsinu.
„Öryggisverðir stöðvuðu hann áður en honum tókst ætlunarverk sitt. Ég vil ekki fara út í smáatriðin eða hvernig öryggisgæslu er háttað. Hún er hins vegar fyrir hendi enda er stöðugt áreiti fjölmiðla og fólks sem vill komast nærri honum.“