Innlent

Framhaldsskólakennarar kjósa um verkfall í næstu viku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Framhaldsskólakennarar munu í næstu viku greiða atkvæði um hvort skuli boða til verkfalls vegna yfirstandandi kjaradeilu.

Undirbúningur atkvæðagreiðslunnar er þegar hafinn og verða atkvæði greidd dagana 18. til 21. febrúar.  

Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna gæti verkfallið þó ekki hafist fyrr en að liðnum ákveðnum tilkynningarfresti en fari svo að verkfallsboðunin verði samþykkt má áætla að framhaldsskólakennarar leggi niður störf að tæpum mánuði liðnum.

Kjarasamningar framhaldsskólakennara hafa staðið opnir síðan 31. janúar síðastliðinn og hafa kjaraviðræður kennara við ríkið staðið yfir síðan í desember í fyrra.  Enn ber mikið á milli samninganefndar framhaldsskólakennara og ríksins en ríkið býðst til að mæta 17% launahækkunarkröfu kennara með 2,8% hækkun.

Fyrirhugað verkfall er liður í því að setja þrýsting á kröfur kennara svo hægt verði að brúa hið mikla bil sem enn aðskilur samninganefndirnar samkvæmt Aðalheiði Steingrímsdóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, í samtölum hennar við fjölmiðla í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×