Íslenski boltinn

Hemmi ekki í hóp í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Hermann Hreiðarsson verður ekki í leikmannahópi Fylkis í kvöld og þá detta þrír úr byrjunarliðinu frá síðasta leik vegna meiðsla.

Þetta staðfesti Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, í samtali við Vísi í dag en Hermann gekk óvænt frá þriggja ára samningi við félagið í síðustu viku.

Ásmundur var reyndar tregur til að gefa upp hvort að Hermann yrði á skýrslu í leiknum gegn Víkingum í kvöld. „Það kemur bara í ljós,“ sagði Ásmundur í léttum tón en fékkst þó til að gefa svar.

„Hann verður ekki í hópnum enda er þetta allt nokkuð nýtilkomið,“ sagði Ásmundur sem sagði reyndar að málið hefði átt sér langan aðdraganda.

„Hann hefur verið með okkur á æfingum af og til í vetur og tengist auðvitað kvennaboltanum sterkum böndum,“ sagði Ásmundur en kona Hermanns, Ragna Lóa Stefánsdóttir, er þjálfari kvennaliðs Fylkis auk þess sem að hann er formaður meistaraflokksráðs kvenna.

„Það er því spurning hvort hann sé að skipta yfir í karla- eða kvennaliðið. Maður veit aldrei eftir Eurovision,“ sagði Ásmundur í léttum tón.

Hann á von á því að hann muni reynast Fylkismönnum liðsstyrkur í sumar. „Það þekkja allir hans sögu og karakter. Það er frábært að fá hann inn á æfingasvæðið og í klefann. Við sjáum svo til hvernig þetta þróast allt saman.“

Ásmundur sagði það væri nokkuð um meiðsli í herbúðum Fylkis í dag og að þrír leikmenn sem voru í byrjunarliðinu gegn ÍBV yrðu ekki með í kvöld. Þetta eru þeir Andrew Sousa, Ragnar Bragi Sveinsson og Stefán Ragnar Guðlaugsson.

„Þetta eru þó ekki alvarleg meiðsli og stutt í þá alla. Þá er Andrés Már Jóhannesson á réttri leið,“ sagði Ásmundur en sá síðastnefndi skoraði eitt marka Fylkis í 3-1 sigri á ÍBV eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Leikur Víkings og Fylkis hefst klukkan 19.15 á gervigrasvellinum í Laugardal í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×