Íþróttafréttamaðurinn Gunnar Birgisson greindi frá þessu á Twitter í dag. Samkvæmt upplýsingum Vísis var það einnig til skoðunar í vor að Damir færi til Asíu en nú er allt útlit fyrir að það verði frágengið á næstu dögum.
Serbinn geðugi kveður Smárann🇷🇸🟢
— Gunnar Birgisson (@grjotze) November 12, 2024
Damir Muminovic hefur rift samningi sínum við Breiðablik og mun spila í Asíu(Singapore Super League) fram á næsta ár. Gerir samning þar til í júní með möguleika á framlengingu. pic.twitter.com/AQ8YYMc6kr
Níu lið leika í úrvalsdeildinni í Singapúr og er eitt þeirra staðsett utan eyríkisins, eða í Brúnei. Það félag heitir DPMM (Duli Pengiran Muda Mahkota) og er eftir því sem næst verður komist það félag sem Damir mun nú ganga til liðs við.
Damir átti eitt ár eftir af samningi sínum við Breiðablik en mun hafa komist að samkomulagi við félagið um að fara í þetta Asíuævintýri. Hann gæti svo snúið aftur eftir að tímabilinu í Singapúr lýkur í maí, og spilað með Blikum á nýjan leik frá og með opnun félagaskiptagluggans í júlí.
Ef rétt reynist að Damir sé á leið til DPMM þá mun hann leika undir stjórn Skotans Jamie McAllister, og í liði sem er að mestu skipað heimamönnum en einnig leikmönnum frá Portúgal, Brasilíu, Afganistan, Ástralíu og Norður-Makedóníu.
Leikmenn DPMM eru nú komnir í frí fram yfir áramót og spila næst deildarleik 13. janúar, gegn toppliði Lion City Sailors. DPMM er sem stendur í 6. sæti af liðunum níu í deildinni, með 21 stig eftir 18 leiki, eða 18 stigum á eftir efstu liðum.