Menning

Hringiða í Árnessýslu

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sýningin Hringiða – Cyclone verður opnuð í Listasafni Árnesinga á laugardaginn klukkan 12. Sýningin er einnig á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Við opnuna verður fluttur gjörningur eftir Lilju Birgisdóttur.



Hringiða er margmiðlunarinnsetning þar sem hljóð og mynd hreyfa við hugmyndum um landamæri eða mörk, raunveruleg og ímynduð. Verkið er samstarfsverkefni finnska sýningarstjórans Mari Krappala og sex listamanna, íslenskra og erlendra.



Frá Íslandi leggur Katrín Elvarsdóttir fram ljósmyndir og Lilja Birgisdóttir hljóðverk. Þrír finnskir ljósmyndarar, Eeva Hannula, Hertta Kiiski og Tiina Palmu, hafa í sameiningu unnið tvö myndbönd fyrir sýninguna og frá eistneska listamanninum Marko Mäetamm kemur margslungið verk. Allt eru þetta ný verk sem ekki hafa verið sýnd áður nema verk Mätamms sem tilnefnt var til virtra eistneskra verðlauna 2012, Köler-verðlauna Samtímalistasafnsins í Tallinn, en það er nú sett upp í nýju og stærra samhengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×