Aðalstjörnurnar hans, Gunnar Nelson og Conor McGregor, unnu báðir í tveimur stærstu bardögum kvöldsins, en til viðbótar unnu þrír aðrir kappar sem Írinn þjálfar sína bardaga áður en komið var að beinu útsendingunni.
Kavanagh er eðlilega spurður mest út í vonarstjörnurnar Gunnar og Conor McGregor sem margir telja að geti farið alla leið og orðið heimsmeistarar í sínum þyngdarflokkum.
„Skiljanlega fæ ég mikið af viðtalsbeiðnum og ég hef ekkert á móti því að veita viðtöl. En til að spara ykkur tíma, þá eru þetta svörin við spurningunum þremur sem þið eruð með,“ skrifaði Kavanagh á Facebook-síðu sína.
Spurningarnar virðast vera:
1. „Er þetta uppgerð hjá McGregor eða er hann svona?“
2. „Eru Gunnar og McGregor góðir vinir?“
3. „Sýnir Gunnar einhverntíma tilfinningar sínar?“
Svörin eru:
1. „Nei, þetta er ekki uppgerð. Hann hefur alltaf verið svona.“
2. „Þeir virðast vera mjög ólíkir en eru í raun og veru mjög góðir vinir.“
3. „Já, hann sýnir stundum tilfinningar.“
Þá er það klárt og vonandi hefur Írinn sparað blaðamönnum mikinn tíma með þessu fína framtaki.