Viðskipti innlent

Myndi ekki selja fyrir ellefu milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn Friðriksson.
Þorsteinn Friðriksson. Mynd/Aðsend
Þorsteinn Friðriksson, framkvæmdastjóri Plain Vanilla, var í viðtali í þættinum Tech knowledge á Fox Business sjónvarpsstöðinni.

Í viðtalinu var Þorsteinn spurður út í leik Plain Vanilla, QuizUp, og samstarf fyrirtækisins við aðila eins og HBO vegna spurninga um Game of Thrones. Þorsteinn sagði leikinn vera að þróast í að verða samfélagsmiðill. Því ekki væri eingöngu hægt að keppa við fólk víðs vegar að úr heiminum, heldur einnig tala við þau.

Aðspurður um tekjur Plain Vanilla, sagði Þorsteinn að engar auglýsingar væru í leiknum. Þess í stað eru þeir í samstarfi við önnur fyrirtæki og vörumerki um styrkta spurningaflokka.

„Sem dæmi unnum við með Google maps að því að gera mjög töff spurningaflokk úr efni þeirra þar sem fólk þarf að giska hvar þær myndir þeirra eru teknar. Í grundvallaratriðum erum við að búa til auglýsingar sem notendur hafa gaman af,“ sagði Þorsteinn.

Þáttastjórnandinn spurði Þorstein hvort hann myndi selja fyrirtækið fyrir 100 milljónir dala, eða um 11,2 milljarða króna. Hann sagði hann myndi ekki selja og því átti þáttastjórnandinn erfitt með að trúa.

„Með hundrað milljónir dala á Íslandi gætir þú keypt allan staðinn,“ sagði hann.

Þorsteinn sagðist myndi hugsa málið fyrir milljarð dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×