Bensínstöð N1 við Ægisíðu 102 verður lokað í haust en fyrirtækið hefur tekið kauptilboði í fasteignina.
Frá þessu var greint í tilkynningu fyrirtækisins um uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Þar segir að gengið verði frá kaupsamningi á haustmánuðum og að áætlaður söluhagnaður sé að lágmarki 260 milljónir króna. Fyrirtækið gefur ekki upp hver kaupandi fasteignarinnar er.
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, segir í samtali við Vísi að verkstæði fyrirtækisins við Ægisíðu verði sameinað verkstæði N1 í Fellsmúla.
„Síðan erum við með mjög öfluga þjónustustöð við Hringbraut sem við munum benda fólki á. Svo munum við kynna þetta nánar þegar nær dregur lokun," segir Eggert.
