Varað við stormi og hálku

Veðurstofa Íslands varar við stormi, meira en 20 metrum á sekúndu, seinni partinn við suðausturströndina og á annesjum norðvestantil.
Gengur í suðvestan 13-20 metra á sekúndu með slyddu, en síðar rigningu sunnan- og vestantil og hlýnar í bili, allt að 23 metrar á sekúndu á annesjum síðdegis. Heldur hægara og úrkomulítið norðaustanlands. Éljagangur og kólnar aftur í kvöld og nótt. Suðvestan 8-15 og víða él á morgun, en slydda eða rigning suðaustantil undir kvöld. Hiti í kringum frostmark.
Vegagerðin varar við hálkublettum á Suðurlandi. Éljagangur er á Hellisheiði og hálkublettir en hálka á Mosfellsheiði og snjóþekja á Lyngdalsheiði. Hálka er á Kolási og Holtavörðuheiði en hálkublettir og snjóþekja eru víða á Vesturlandi. Reykjanesið er nánast greiðfært.
Hálka og snjóþekja eru á Vestfjörðum. Hrafnseyrarheiði er ófær og Dynjandisheiði þungfær.
Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Norðurlandi. Á Austurlandi eru hálkublettir á stöku fjallvegum en annars greiðfært. Hálka og hálkublettir eru á Suðausturlandi.