Viðskipti innlent

Kostnaður vegna rannsóknarnefnda 1400 milljónir

Fjárlaganefnd Alþingis fundaði í morgun vegna kostnaðar við rannsóknarnefndir Alþingis. Kostnaður vegna rannsóknar á falli íslensku bankanna var alls 454 milljónir króna og kostnaður vegna rannsóknar á Íbúðalánasjóð alls rúmar 249 milljónir, en var upphaflega áætlaður 70 milljónir. Þá var kostnaður vegna rannsóknar á falli Sparisjóðanna tæpar 678 milljónir en nefndin skilaði af sér þann 10. apríl síðastliðinn, tæpum tveimur árum seinna en áætlað var. Alls er kostnaðurinn vegna þessara þriggja nefnda 1382 milljónir króna, langt yfir þeim áætlunum sem gert var ráð fyrir.

Í minnisblaði sem lagt var fram á fundi fjárlaganefndar í morgun kemur fram að kostnaður vegna rannsóknar á falli sparisjóðanna á þessu ári, nemi tæpum 130 milljónum króna, en ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu vegna þessa í fjárlögum ársins 2014.

Það sem vekur athygli manns þegar að maður skoðar þetta, er að það er eins og menn læri ekki neitt. Það voru gerð mistök hvað varðar áætlanagerð og eftirfylgni og eftirlit Alþingis í fyrstu skýrslunni, í annarri skýrslunni og svo sannarlega í þriðju skýrslunni. Þetta er ótrúlegt mál og það er auðvitað alltaf leiðinlegt þegar að menn gera mistök og fara fram úr áætlunum, en það er ennþá verra þegar að menn læra ekkert af mistökunum,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur segir mikilvægt að fara yfir málið áður en önnur rannsóknarnefnd tekur til starfa. Mynda þurfi ramma utan um rannsóknir sem þessar þannig að ekki verði opnaðar flóðgáttir fyrir framúrkeyrslur sem þessar.

Þeir sem borga fyrir þetta allt saman eru skattgreiðendur, og þeir eiga betra skilið,” segir Guðlaugur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×