Íslenski boltinn

Igor Taskovic fékk bara einn leik í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árni Vilhjálmsson var blóðugur eftir viðskipti sín við Igor Taskovic.
Árni Vilhjálmsson var blóðugur eftir viðskipti sín við Igor Taskovic. Vísir/Daníel
Igor Taskovic, fyrirliði Víkingsliðsins, er einn af fimm leikmönnum Pepsi-deildar karla sem verða í leikbanni í 10. umferðinni en Aga- og úrskurðarnefnd hefur gefið út vikulegan úrskurð sinn.

Igor Taskovic fékk beint rautt spjald fyrir að skalla Blikann Árna Vilhjálmsson í leik liðanna á sunnudagskvöldið. Atvikið sást ekki á sjónvarpsupptökum frá leiknum og dómarinn Garðar Örn Hinriksson sá það ekki heldur. Garðar Örn fékk upplýsingar um það sem gerðist frá öðrum af aðstoðardómurum sínum.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur nú tekið fyrir rauða spjaldið hjá Igor Taskovic fyrir og hann fær bara einn leik í bann eins og venjan er þegar leikmenn fá sitt fyrsta rauða spjald á tímabilinu.

Igor Taskovic tekur bannið út á móti KR á KR-vellinum eftir viku en þá verður

liðsfélagi hans Arnþór Ingi Kristinsson einnig í banni eftir að hafa fengið líka rautt spjald í leiknum við Breiðablik. Víkingur fékk tíu þúsund króna sekt vegna tíu refsistiga í þessum Blikaleik.

Fylkismaðurinn Oddur Ingi Guðmundsson, Valsmaðurinn James Hurst og Þórsarinn Ármann Pétur Ævarsson eru allir í banni í þessari umferð en þeir hafa allir fengið fjórar áminningar í sumar.

Leikmenn úr Pepsi-deildinni í banni í 10. umferð:

Oddur Ingi Guðmundsson, Fylki (4 áminningar)

James Hurst, Val (4 áminningar)

Arnþór Ingi Kristinsson, Víkingi R. (Rautt spjald)

Igor Taskovic, Víkingi R. (Rautt spjald)

Ármann Pétur Ævarsson, Þór  (4 áminningar)

Alla úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í þessari viku má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×