Göngin koma milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og verða sjö og hálfur kílómetri á lengd. Eitt ár er liðið um þessar mundir frá fyrstu sprengingu en tékkneska fyrirtækið Metrostav og Suðurverk annast gangagerðina.
Norðfjarðarmegin ræddi Stöð 2 við Grétar Pál Ólafsson, verkstjóra hjá Suðurverki, sem segir verkið á áætlun. Þeir hafi þó verið að kljást við drullulög Eskifjarðarmegin, sem hægi aðeins á verkinu og kalli á styrkingar og steypu. „En það gengur,“ segir Grétar.

„Það er á næsta ári, síðsumars, eða næsta haust,“ svarar Grétar. Þá verður þó eftir mikil vinna og er ekki gert ráð fyrir að jarðgöngin verði opnuð umferð fyrr en árið 2017.
Í Fjarðabyggð þakka ráðamenn fyrir að göngin skyldu hafa sloppið undan niðurskurðarhnífnum. Bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson segir forystumenn þjóðarinnar hafa séð mikilvægi þessara jarðganga. Mikil verðmæti yrðu til í bæjarfélaginu og í Neskaupstað væru lykilstofnanir, eins og sjúkrahúsið og Verkmenntaskólinn, auk hafnarinnar.
Austfirsk fjöll eru fræg fyrir fagra steina og hafa bormennirnir fundið fjölda slíkra, sem berast með útgreftrinum.
„Jú, jú, alveg helling af fallegum steinum. Ég hirði alla fallega steina sem ég sé,“ segir Grétar um leið og hann sýnir stein sem hann hafði tekið til hliðar. Hann segir þetta góða námu fyrir steinasafnara.
