Innlent

Gagnrýndi uppsagnir 18 ræstingarkvenna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna gagnrýndi uppsagnir 18 ræstingakvenna í stjórnarráðinu á Alþingi í dag. Hún tók til máls í upphafi þingfundar í dag til að ræða málið og meðal annars sagði hún uppsagnirnar skýrast af fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna sem væru á mun hærri launum.

„Um er að ræða tekjulægsta hóp stjórnarráðsins og allt eru þetta konur sem eiga ekki endilega auðvelt með að fá sambærileg störf annars staðar á sömu kjörum,“ sagði Bjarkey samkvæmt tilkynningu frá Vinstri grænum.

„Það er lítil reisn yfir svona aðgerðum og ótrúlegt á sama tíma og ríkisstjórnin vill ekki framlengja auðlegðarskattinn eða fá auknar greiðslur fyrir afnot af sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni.“

Hún setti uppsagnirnar í samhengi við orð ýmissa þingmanna stjórnarflokkanna um fækkun opinberra starfsmanna. Þá sagði hún að vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna þeirra þurfi að skera niður í rekstrarkostnaði ráðuneyta með því að segja upp láglaunafólki.

„Því miður styður þessi aðgerð við það sem margoft hefur verið sagt að við völd á Íslandi í dag er ríkisstjórn hinna ríku,“ sagði Bjarkey.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra vissi ekki af uppsögnum í Stjórnarráðinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra komst að því í fjölmiðlum að átján konum hefði verið sagt upp í Stjórnarráði Íslands. Hann furðar sig á myndbirtingum fjölmiðla af Stjórnarráðshúsinu þar sem engum var sagt upp í Stjórnarráðinu sjálfu.

Ríkið segir upp átján konum

Konurnar eru allar íslenskar og eru á sextugs- og sjötugsaldri. Þær störfuðu við ræstingar og var starfshlutfall þeirra um 60-70 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×