Innlent

Segist aldrei hafa hitt hamingjusama vændiskonu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tugir kvenna leita til Stígamóta á hverju ári vegna vændis en talskona samtakanna segir að þær hafi allar þurft að þola líkamlegt og andlegt ofbeldi. Hún kveðst aldrei hafa hitt hamingjusama vændiskonu.

Rætt var við unga vændiskonu í fréttaskýringaþættinum Brestum á Stöð 2 í gær. Konan er gift og á eitt barn með manninum sínum en hún sagði að vændið hafi ekki haft skaðleg áhrif á sig.

Reynsla hennar er á skjön við það sem starfsfólk Stígamóta þekkir en þangað leita tugir kvenna á hverju ári útaf vændi.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta segir aldrei hafa hitta hamingjusama vændiskonu.

„Við höfum ekki hitt hana hér á Stígamótum. Starf okkar snýst mikið um að aflífa goðsagnirnar um hina hamingjusömu vændiskonu vegna þess að raunveruleikinn sem að okkar konur lýsa er ansi fjarri því sem oft er haldið að fólki. Einmitt sú goðsögn er forsenda þess að karlar geti réttlætt það að kaupa konur og þess vegna eru þessar goðsagnir mjög skaðlegar,“ segir Guðrún.

Hún segir heim þessara kvenna einkennast af ofbeldi, fíkniefnum og kúgun. Þær séu mjög brotnar þegar þær koma til Stígamóta.

„Þær eru uppfullar af skömm og sektarkennd. Það fer mjög illa með þær að lifa tvöföldu lífi. Að halda því leyndu að þær séu í vændi af því að þær eru líka gjarnan mæður, frænkur, systur og þurfa að ganga hér mitt á meðal okkar,“ segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×