Íslenski boltinn

Samninganefnd: Emil samningsbundinn KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Arnþór
Samninganefnd KSÍ hefur úrskurðað í máli Emils Atlasonar og knattspyrnudeildar KR vegna ágreinings um ákvæði í samnings hans við deildina.

Emil skrifaði undir tveggja ára samning við KR í febrúar árið 2012 sem rann út í síðasta mánuði. KR ákvað hins vegar að virkja ákvæði í samningnum um framlengingu til eins árs.

Samninganefnd komst að þeirri niðurstöðu að KR hefði verið í fullum rétti og er því samningurinn gildur.

„Þjálfarinn [Bjarni Guðjónsson] hefur nú það verkefni á sinni könnu að ræða við leikmanninn,“ sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.

„Það er alveg klárt mál að mínu mati að samningurinn er runninn út. KR-ingarnir vilja meina að þeir hafi átt rétt á að framlengja samninginn án þess að ég hefði neitt um það að segja. Þetta var aldrei útskýrt þannig fyrir mér,“ sagði Emil í samtali við Morgunblaðið þann 23. október og sagðist hann vilja losna frá KR.

„Þetta eru auðvitað ekki ákjósanlegar aðstæður en hann er ungur og óharðnaður leikmaður. Við setjumst nú niður og ákveðum framhaldið,“ sagði Kristinn sem sagði að afstaða KR í málinu hafi verið skýr frá fyrsta degi.

„Það var svo ekki fyrr en á haustmánuðum fyrr en að við fengum skilaboð frá pabba hans [Atla Eðvaldssyni, fyrrum þjálfara KR] þar sem hann fór að tala um ólöglega framlengingu.“

„En nú er búið að úrskurða að þetta hafi allt saman verið rétt, eins og við töldum ávallt.“


Tengdar fréttir

Emil notar KSÍ til að losna frá KR

Framherjinn Emil Atlason hefur leitað til samninganefndar KSÍ til að losna undan samningi sínum við KR. Þetta staðfestir Kristinn Kjærnsted, formaður knattspyrnudeildar KR, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×